133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

málefni aldraðra.

190. mál
[15:25]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja, vegna athugasemda hv. þingmanns, að mér finnst fullkomlega eðlilegt að þetta mál komi inn í þingið. Mér hefur alltaf fundist það, í hvert skipti sem það hefur komið hér inn. Ég tel eðlilegt að við ræðum það í hvert skipti, hvort það skuli hækkað eða ekki og það afgreitt hér.

Ég sammála hv. þingmanni um að það er umhugsunarefni hvernig við nýtum þessa peninga. Það er ljóst að við erum 15–20 árum á eftir öðrum Norðurlandaþjóðum í uppbyggingu og þjónustu fyrir aldraða í hjúkrunarþjónustunni. Þar þurfa að vera heimilislegar einingar. Þessar stóru stofnanir eru liðin tíð. Það að fólki sé þröngvað í herbergi með öðrum er líka arfur gamals tíma. Fólk verður að geta haft val, ef það vill vera í herbergi með öðrum á það að geta verið það. En það á líka að geta haft sitt prívat, eins og sagt er á vondri dönsku.

Við þurfum fleiri úrlausnir. Við getum verið með þjónustukjarna þar sem fólk fær þjónustuna heim eins og er víða á Norðurlöndum og fólk geti valið um hvort það fer í bað á hverjum degi eða hvernig þjónustu það fær, hvers konar mat það vill borða o.s.frv. Þessar stóru stofnanir eru gamaldags, arfur frá gömlum tíma þó að þær henti mörgum þeim allra veikustu. Við verðum að vera með þær líka en þá þurfa að vera fleiri úrræði.

Það sem hv. þingmaður nefndi áðan, varðandi það hvernig fólk greiðir fyrir þetta þá eru það líka gamaldags og niðurlægjandi aðferðir, þessi vasapeningaleið, það hvernig fjárráð eru tekin af fólki þegar það verður veikt eða lendir inni á sjúkrastofnunum. Það fær vasapeninga ef það er með lítil fjárráð eða heldur eftir litlu af lífeyrisgreiðslum sínum. Það á auðvitað að greiða sína leigu, fyrir matinn o.s.frv. en hafa fjárráð engu að síður.