133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[17:39]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mun vinna áfram að því að aðstoða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við að koma sér vel fyrir í nýju húsnæði, það er mitt hlutverk. (Gripið fram í.) Það er verið að innrétta það núna og við höfum verið í miklu samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins varðandi það og í þeim farvegi er þetta mál. Flutningur stendur yfir, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins mun flytja inn í þetta húsnæði og við munum taka það í notkun bráðlega og búa um starfsemina á nýjum stað eins vel og okkur er frekast unnt, þannig er staðan.

Ég veit að það hefur verið langur aðdragandi að þessu öllu, sölunni og flutningnum, og ekki eru allir sáttir við staðsetninguna. Mér er fyllilega ljóst hvernig það mál er vaxið og ég veit að sumir starfsmennirnir hafa ekki verið sáttir við flutninginn, ég þekki það, þeir hafa afhent mér undirskriftalista (Gripið fram í.) og gerðu það — það er langt síðan — á sínum tíma. (Gripið fram í.)