133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[17:46]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt skilið hjá hv. þingmanni (Gripið fram í.) að það eru engar áætlanir um skipulagðar sameiningar. Og þetta er ekki tengt kosningum eins og hér er kallað fram í. Ég tel mikilvægt að þegar um sameiningar er að ræða, sem geta orðið í framtíðinni, það getur enginn útilokað það, sé mikilvægt að haft sé samráð við heimamenn. Heimamenn hafa samt ekki neitunarvald en það verður samráð, bæði við heimamennina og Samband íslenskra sveitarfélaga. Það er mikilvægt að það takist vel til þegar sameinað er.

Það er búið að sameina á Suðurlandi og Austurlandi og það hefur tekist frekar vel, það er mín skoðun en sumir telja að svo sé ekki. Það á að sameina til þess að efla þjónustu, það er meginmarkmiðið. Það hefur verið svigrúm til að efla þjónustu að mínu mati, bæði á Suðurlandi og Austurlandi þar sem búið er að sameina og þar hefur verið auðveldara t.d. að manna af því að menn hafa getað farið í vaktir á milli svæða.

Það er ekki hægt að útiloka sameiningar í framtíðinni, það getur enginn, en frumvarpið felur ekki sameiningar í sér eins og var.