133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

nýtt þjóðhagsmat Seðlabankans.

[15:05]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og sem yfirmann efnahagsmála hvort ríkisstjórnin hafi rætt stöðu þeirra mála nú eftir útgáfu nóvemberheftis Peningamála eftir vaxtaákvörðun Seðlabankans og eftir að nýtt mat Seðlabankans á stöðu efnahagslífsins liggur fyrir. Þar kemur fram að þó að skammtímaverðbólguhorfur hafi heldur skánað eru þær engu að síður enn þá óviðunandi að mati bankans og langt utan viðmiðunarmarka, og langtímaverðbólguþrýstingur hefur ekki minnkað. Ytri jöfnuður þjóðarbúsins hefur enn versnað og það stefnir í hrikalegri viðskiptahalla en áður var talið, þ.e. yfir 20% miðað við verga landsframleiðslu.

Seðlabankinn víkur bæði ljóst en þó kannski aðallega leynt að frammistöðu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og það er ljóst að honum finnst hann fá lítinn stuðning þaðan. Þar er sagt að of snemma hafi verið slakað á framkvæmdaaðhaldi. Tímasetning skattalækkana er gagnrýnd. Það er sagt að lækkun óbeinna skatta og vörugjalda muni tefja aðlögun hagkerfisins og leiða til þess að þörf verði fyrir allt að hálfu prósenti hærri stýrivexti en ella. Það er varað við því að rýmka útlánareglur Íbúðalánasjóðs og það er sagt að það muni draga úr spennu komi ekki til nýrra stórframkvæmda. Gagnályktun af því er sem sagt sú að ella muni spennan ekki minnka og jafnvægisleysið jafnvel aukast frekar en hitt. Því eru spurningar mínar til hæstv. forsætisráðherra eftirfarandi:

1. Hefur ríkisstjórnin rætt stöðuna nú í framhaldi af þessu haustmati Seðlabankans? Ég vísa til þess að hæstv. forsætisráðherra hefur verið fámáll og þögull við fjölmiðla og vísað á fjármálaráðherra í þeim efnum. Síðast þegar ég vissi fór þó hæstv. forsætisráðherra engu að síður með yfirstjórn efnahagsmála.

2. Kemur til greina í ljósi þessa að endurskoða áform í skattamálum og stöðva undirbúning frekari stóriðjuframkvæmda?

3. Hefur hæstv. forsætisráðherra sömu áhyggjur af lánshæfismati þjóðarbúsins og Seðlabankinn?