133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

nýtt þjóðhagsmat Seðlabankans.

[15:08]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Vitanlega ræðir ríkisstjórnin reglulega um efnahagsmálin í landinu. Eitt af hennar stærstu viðfangsefnum er að fást við þau. Skýrslur Seðlabanka Íslands sem koma með reglulegu millibili eru að sjálfsögðu mikilvægt innlegg í slíkar umræður, bæði á vettvangi ríkisstjórnarinnar og hér á Alþingi og svo að sjálfsögðu í þjóðfélaginu almennt.

Ég met mikils það sem Seðlabankinn hefur fram að færa í þessum efnum og hef gert lengi, sennilega mun lengur en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem hefur í gegnum tíðina frekar lítið gert með það sem þaðan kemur. Það þýðir ekki það að menn séu endilega alltaf sammála öllu sem Seðlabankinn lætur frá sér fara. Markmið hans eru reyndar þau að sjá til þess að hans eigin verðbólguspár rætist ekki og það gerir hann með því að breyta stýrivöxtunum eins og kunnugt er til að koma í veg fyrir að spár hans sjálfs rætist. Allt er þetta eins og vera ber samkvæmt bókinni eins og sagt er eða samkvæmt lögum.

Ég er ósammála því að hér sé ekki að draga úr þenslu. Þenslan er á mikilli niðurleið. Hafa menn veitt því athygli hversu hagstæð tilboð Vegagerðin fékk í nokkur verkefni eins og dregið er fram í dagblöðum í dag og hefur verið á vefsíðu Vegagerðarinnar um nokkra hríð? Þetta er auðvitað til marks um það að spennan á þessu sviði er mjög að minnka. Ég held að allar efnahagsspár, þar á meðal spár Seðlabankans, sýni fram á það að sú spenna sem hér hefur verið í efnahagslífinu á undanförnum mánuðum er mjög á undanhaldi, sem betur fer.

Við höfum tímasett skattalækkanir með þeim hætti að þær komi til framkvæmda þegar dregið hafi úr spennunni. Það hefur verið vitað allt þetta kjörtímabil að áður en því lyki yrðu gerðar ráðstafanir hér hvað varðar virðisaukaskatt á matvælum og nú er ráðgert að þær komi til framkvæmda 1. mars þegar enn á að vera búið að draga úr spennunni.