133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

upplýsingar til þingmanna.

[15:17]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Ef ég skil hv. þingmann rétt er hún að kvarta yfir þeirri vinnureglu sem tíðkast hefur í mörg ár varðandi vinnu fjárlaganefndar með einstaka þætti í fjárlagafrumvarpinu. Þar hefur reglan verið sú að ráðuneytin svara fyrir stofnanir sínar gagnvart nefndinni en ekki stofnanirnar sjálfar, þær komi ekki sjálfar, enda eru þær fjölmargar, í löngum bunum fyrir fjárlaganefnd með sínar hugsanlegu fjárlagaóskir.

Það er vegna þess að það er ákveðið kerfi í þessu. Fagráðuneytin bera ábyrgð á fjármálum stofnana sinna gagnvart þinginu og síðan bera þær auðvitað sína ábyrgð gagnvart ráðuneytunum. Ég veit ekki alveg hvað þingmaðurinn er að fara ef hún er að tala hér um einhverja nýja hluti. Hitt veit ég að það var eitt mitt síðasta verk sem fjármálaráðherra fyrir rúmu ári að beita mér fyrir mjög stórfelldri aukafjárveitingu til Landspítala – háskólasjúkrahúss. Þá þóttu mönnum góðar horfur á að spítalinn kæmist í jafnvægi.

Ég get ekki sagt mikið meira um það hér en þykist vita að bæði heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra hafi fullan hug á að standa vel á bak við þá stofnun, ef það er það sem þingmaðurinn var að tala um.