133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

upplýsingar til þingmanna.

[15:20]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Mér heyrist þingmaðurinn vera að tala um tvennt, annars vegar vinnubrögð og hins vegar stöðuna innan tiltekinnar stofnunar, Landspítalans. Varðandi vinnubrögðin er mér ekki kunnugt um að þar séu neinar nýjar reglur á ferðinni frá því sem verið hefur undanfarin ár. Auðvitað getur fjárlaganefnd kallað til sín fulltrúa hverrar þeirrar stofnunar sem hún vill. Auðvitað hefur hún vald til þess. En ríkisstjórnin hefur búið sér til vinnulag í þessum efnum sem hefur gefið góða raun á undanförnum árum og örugglega hjálpað fjárlaganefndinni líka í skipulagsvinnu sinni hvað þetta varðar.

Ég ætla ekki að svara fyrir fjármál Landspítalans neitt frekar en auðvitað er hagur allra að rekstur hans sé í góðu horfi.