133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

erlent vinnuafl og innflytjendur.

[15:22]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Nú um áramótin ganga Búlgaría og Rúmenía í Evrópusambandið. Ég kem hér upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra. Það sem ég vil fá að grennslast fyrir um er hvaða stefnu ríkisstjórnin hefur í málefnum þessara ríkja, þ.e. varðandi frjálst flæði vinnuafls frá þessum löndum. Í þessum löndum búa um 30 millj. manns. Þetta eru mjög fjölmenn ríki, hundrað sinnum fjölmennari en Ísland, fátæk ríki, og mig fýsir að vita hvort vænta megi einhvers konar frumvarps frá ríkisstjórninni hingað inn í þingið þar sem breyta þarf þá lögum, vænti ég, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, með svipuðum hætti og gert var með fádæma sleifarlagi hér í vor þegar frjálst flæði vinnuafls var samþykkt frá öðrum löndum sem eru nýgengin í Evrópusambandið. Þetta miðaðist við 1. maí á þessu ári.

Það væri gott að fá svar við þessari spurningu: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera í þessu máli? Hvers er að vænta af hálfu ríkisstjórnarinnar? Ég minni á það að tíminn líður hratt og það er ekki langur tími eftir af störfum þingsins. Áætlun segir að við skulum hætta hér störfum og fara í jólafrí 15. desember, þ.e. eftir rétt rúman mánuð.

Ég mundi líka vilja fá að grennslast fyrir um það hjá hæstv. ráðherra hvað líði framkvæmdaáætlun varðandi málefni innflytjenda sem átti að kynna fyrir félagsmálanefnd fyrir 1. október 2006, þ.e. á þessu ári, fyrir rúmum mánuði. Það var talað um að það ætti að fara í þessa vinnu þegar lögin um frjálst flæði voru samþykkt hér þann 28. apríl sl. en ég veit ekki til þess að neitt bóli á þeirri framkvæmdaáætlun.

Einnig átti starfshópur að fara yfir þessi málefni þar sem fulltrúar stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins áttu að eiga sæti. Þessi starfshópur átti að skila af sér 1. nóvember sl. en ég hef ekki séð að af því hafi orðið.