133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

erlent vinnuafl og innflytjendur.

[15:25]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta svar fannst mér alveg fádæma lélegt. Það kemur sem sagt í ljós að ríkisstjórnin hefur enn þá ekki gert upp hug sinn varðandi það hvað gera eigi þegar Rúmenía og Búlgaría verða aðilar að Evrópusambandinu núna um áramótin. Það liggur ekki fyrir nein stefna í þessu máli.

Eins og ég sagði áðan í ræðu minni eru ekki margir dagar eftir af störfum þingsins fram að jólum. Við hér á Alþingi, við þingmenn sem erum með löggjafarvaldið í þessu landi, þurfum að fá þetta mál til meðferðar. Ég reikna með að það sé réttur skilningur hjá mér að svo verði.

Á þá virkilega að fara sömu leið og hér í vor þegar lögin um frjálst flæði voru keyrð í gegnum þingið á örfáum dögum, afgreidd út úr félagsmálanefnd, nánast með valdi, og allir þingmenn greiddu því atkvæði nema þrír, þ.e. þingmenn Frjálslynda flokksins, eini flokkurinn sem hélt haus í þessu máli? Ætlum við virkilega að halda áfram þessum vinnubrögðum á hinu háa Alþingi? Hvernig í ósköpunum stendur á því að þessir starfshópar sem voru skipaðir hér í vor — það var lofað að farið yrði í þessa vinnu — af hverju er ekki búið að fara í þessa vinnu? (Forseti hringir.) Þetta þýðir náttúrlega að þessi mál eru í algerum ólestri.