133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[15:58]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi að greiðslumatið kynni að hafa ruglast út af því að vaxtabæturnar voru skertar. Nú kemur fram í greinargerð þessa frumvarps að lækkun upphæðanna er einungis 300 millj. af 4,8 milljörðum, þ.e. þetta lækkar að meðaltali eingöngu um 6%. Þessu frumvarpi er ætlað að bæta þetta og gott betur því samkvæmt greinargerð þess fara greiðslur ríkissjóðs upp fyrir það sem áætlað var í fjárlögum, í 5,3 milljarða í staðinn fyrir 5,1 milljarð.

Það sem ég vildi gera athugasemd við í ræðu hv. þingmanns er greiðslumatið. Það byggir á áætlun um laun fólks í framtíðinni, áætlun um neyslu og áætlun um greiðslu af lánum. Nú fer neyslan og greiðslan af lánum hvort tveggja eftir neysluvísitölu, hvort tveggja er verðtryggt með því. Það sem skekkist í þessu dæmi er að launin hafa hækkað almennt töluvert miklu meira en verðlag, a.m.k. á síðustu 2–3 árum. Greiðslumatið sýnir því betri stöðu núna en gert var ráð fyrir vegna þess að launin hækka meira en verðlag. Síðan kemur inn í myndina að eignamyndunin er töluvert mikil vegna þess að íbúðarhúsnæði hefur hækkað miklu meira en skuldirnar þannig að fólk er að eignast miklu meira en gert var ráð fyrir í greiðslumatinu.