133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:02]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var einmitt að gera athugasemd við það að hv. þingmaður nefndi að greiðslumatið kynni að skekkjast, að þetta greiðslumat sem menn fóru í á sínum tíma kynni að verða fyrir bí. Ég benti á að ef það skekkist þá er það helst í hina áttina, að það sé betra vegna þess að launin hafa hækkað mikið meira en greiðslur á lánum og greiðslur fyrir mat og annað slíkt sem fjölskyldan þarf til neyslu. Ég var bara að benda á þetta.

Með frumvarpinu er verið að laga þá vankanta sem voru í lögunum sem eru vegna þess að fasteignaverðið hefur hækkað mikið meira en flest annað, fólkinu til góða vegna þess að það á meira af því að skuldirnar hafa ekki hækkað eins og fasteignirnar, þannig að bilið milli eigna og skulda er alltaf að gliðna. Menn eiga alltaf meira og meira. Það er verið að nálgast þann vanda, ef vanda skyldi nefna, með því að hækka mörkin í frumvarpinu um 25%.

Ef hv. þingmaður vill fella niður eignamörk í vaxtabótunum þá er dálítið undarlegt að heyra það úr munni jafnaðarmanns að stóreignamenn eigi að fá vaxtabætur úr ríkissjóði.