133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:05]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu ríkisstjórnarinnar um að breyta eða færa til betri vegar skerðingar vegna vaxtabóta. Nú er þess skemmst að minnast að á þingi á síðasta vori, nánar tiltekið 3. júní, fékk þingheimur tækifæri til að greiða atkvæði með tillögu af sama stofni, sama meiði og sú tillaga sem hæstv. fjármálaráðherra hefur hér mælt fyrir en þá brá auðvitað svo við að hv. stjórnarliðar í þingsal felldu þá tillögu, breytingartillögu við lögin nr. 90/2003, um tekjuskatt, og varðaði það lagafrumvarp reyndar gengishagnað en þetta atriði var algerlega fyrirséð síðastliðið vor. Flutningsmaður breytingartillögunnar sem stjórnarliðar sáu til að yrði felld þann 3. júní var hv. þm. Atli Gíslason, varaþingmaður okkar Vinstri grænna í Reykv. n.

Þegar álagning skatta 2006 var kunngerð kom auðvitað í ljós að þeim sem fengu vaxtabætur vegna hækkunar fasteignamatsins fækkaði um 10 þúsund einstaklinga á milli ára og ég fullyrði og tel að raunar liggi fyrir sú niðurstaða að fækkunin hafi að langflestu leyti orðið vegna breytinganna á verðmæti fasteigna. Það segir í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu sem birt var 26. júlí í sumar um helstu niðurstöður skattálagningar árið 2006, með leyfi forseta:

„Ákvarðaðar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af íbúðarlánum, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2005, nema 4,5 milljörðum króna í ár sem er lækkun um rúm 13% frá fyrra ári, eða tæpar 700 millj. kr. Mikil hækkun fasteignamats á íbúðarhúsnæði milli áranna 2004 og 2005 ásamt tekjuaukningu veldur væntanlega mestu um lækkunina, en vaxtabætur skerðast með auknum eignum og tekjum. Vaxtabótaþegum fækkar til muna, eða um 10 þúsund einstaklinga og verða þeir tæplega 44 þúsund talsins. Vaxtabótum er skipt á milli hjóna og sambýlisfólks. Meðalbætur á hvern vaxtabótaþega eru 102 þúsund krónur samanborið við tæpar 96 þúsund krónur í fyrra og hækka því um tæplega 7% milli ára.“

Í framhaldi af því ástandi sem skapaðist vegna hins háa verðs á fasteignum kom yfirlýsing frá ríkisstjórninni sem hæstv. fjármálaráðherra gat um í máli sínu og í 2. tölulið þeirrar yfirlýsingar segir að ríkisstjórnin lýsi sig reiðubúna til að endurskoða þessi ákvæði laga um vaxtabætur ef í ljós komi við niðurstöðu álagningar að hækkun fasteignaverðs á árinu 2005 hafi leitt til marktækrar skerðingar á vaxtabótum. Það hefur komið í ljós að 10 þúsund einstaklingar urðu að lúta skerðingunni, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór yfir máli í máli sínu áðan, og í langflestum tilvikum er það fólk sem er illa statt fjárhagslega, fólk sem er kannski að kaupa sér sína fyrstu íbúð eða fólk sem þarf að fjármagna íbúðakaup með háum lánum en það þurfa auðvitað flestir að gera í dag.

Það sem er önugt við þetta er auðvitað að í tillögu ríkisstjórnarinnar, í því frumvarpi sem við ræðum hér, er lagt til að ákveðið lágmark eignaviðmiðunar að frádregnum skuldum til skerðingar á vaxtabótum verði hækkað um allt að 25%. En það liggur fyrir og segir sig sjálft í því hve margir einstaklingar misstu vaxtabæturnar við síðustu álagningu að 25% er ekki nægilega hátt. Að öllum líkindum þarf að fara upp undir 35% til þess að við getum sagt að allir þeir sem urðu fyrir skerðingu við síðustu álagningu fái leiðréttingu. Ég held að ekki sé eðlilegt að gera hér einhvern mannamun og til að réttlætis sé gætt verði hæstv. ráðherra að átta sig á því að það þarf að stíga stærra skref en hér er lagt til.

Í þessu sambandi vil ég geta þess, af því að þetta kemur inn á verðlagningu á fasteignum og mat á verðmæti og fasteignum, að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram í þriðja sinni á þessu löggjafarþingi tillögu til þingsályktunar um mat á fasteignum og um álagningarstofn fasteignaskatts. Við erum þeirrar skoðunar að það þurfi og sé brýnt að fara ofan í saumana á því og leggjum til að skipuð verði nefnd sem falið verði það verkefni að gera tillögur um breytingar á reglum um ákvörðun matsverðs íbúðarhúsnæðis og sömuleiðis sumarbústaða- og sumarhúsalóða, en við höfum rekið okkur á sömu tilhneigingu varðandi sumarhús og sumarbústaðalóðir eins og almennt íbúðarhúsnæði.

Að okkar mati þarf að endurskoða reglur um álagningarstofn og álagningu fasteignaskattsins þannig að tengsl álagningarstofnsins við skyndilegar breytingar á markaðsverði fasteigna verði rofin en í stað þess taki álagning fasteignaskatts breytingum í takt við almennar verðlagshækkanir. Menn hljóta að sjá það, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vék að, að þegar fólk situr einungis í íbúðum sínum án þess að gera nokkuð til að innleysa þá verðmætaaukningu sem verður á fasteigninni við hækkun fasteignamatsins þá er það önugt að menn skuli missa þær vaxtabætur sem ævinlega hefur verið gert ráð fyrir í öllum greiðsluáætlunum þeirra einstaklinga. Þannig að fólk sem á síðustu tveimur, þremur árum hefur gert ráð fyrir þessum vaxtabótum í útreikningum varðandi kaup á húsnæði og niðurgreiðslu skulda sinna verður fyrir verulegum búsifjum og verulegu áfalli þegar í ljós kemur að álagningarstofninn hefur hækkað. Þetta hefur bein áhrif á fjárhagslega stöðu og afkomu fólksins. Þetta er mál af því tagi að það er bara vonum seinna sem þetta kemur fram og auðvitað hefði átt að samþykkja breytingartillöguna frá Atla Gíslasyni í fyrra. En ég tek undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að það verður að fara vel ofan í saumana á þessu í félagsmálanefndinni til að ganga úr skugga um að réttlætis sé gætt og ég tel að það verði ekki gert fyrr en prósentan er komin úr 25% upp undir 35%.