133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:12]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætlaði aðeins að bæta því við í þessari umræðu að mér finnst þetta óskaplega dapurleg málafylgja af hálfu hæstv. fjármálaráðherra. Það má í raun og veru segja að hann bregðist við hér með jafndapurlegum hætti og hann skildi við málið síðastliðið vor. Það hlýtur að vera ósköp snautlegt fyrir hæstv. fjármálaráðherra, ekki síst í ljósi eigin orða og ræðuhalda í fyrravor, að þurfa svo að koma með þetta mál og gera það ekki af meiri reisn en þetta, einfaldlega vegna þess að það lá allt fyrir sem liggja þurfti fyrir um þetta mál í fyrra. Það lá algerlega fyrir að hækkanir á fasteignaverði mundu skerða vaxtabætur hjá þúsundum fólks og það þurfti enga álagningu í sumar til að leiða það í ljós.

Þess vegna er orðalagið í greinargerðinni með frumvarpinu dálítið sérkennilegt. Þar er talað um að þegar ákvörðun vaxtabóta vegna vaxtagjalda, sem greidd voru á síðasta ári, lá fyrir í ágúst sl. hafi komið í ljós talsverð skerðing á heildarfjárhæð vaxtabóta frá því sem reiknað hafði verið með samkvæmt forsendum fjárlaga fyrir yfirstandandi ár. Jafnframt hafi verið um umtalsverða fækkun vaxtabótaþega að ræða og þyki sýnt að mikil hækkun á fasteignamati milli áranna 2004 og 2005 sé meginskýring þessarar þróunar þótt aðrir þættir, eins og meiri tekjubreytingar en áætlað hafði verið, hafi einnig átt sinn þátt í skerðingunni.

Það er ekki seinna vænna að þetta renni upp fyrir fjármálaráðuneytinu, sem lá algerlega fyrir og var borðleggjandi og var bent á hér síðastliðið vor. Dæmin sem reidd voru fram, t.d. af hv. þm. Atla Gíslasyni, útreiknuð raunveruleg dæmi á grundvelli framtals einstaklinga sem hann sem lögmaður hafði annast, dugðu ekki til að fá hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. ríkisstjórn til að horfast í augu við veruleikann sem blasti við, sem var borðleggjandi. Fasteignaverðshækkunin lá fyrir. Það var ekkert sem ekki lá fyrir í sambandi við hana.

Gagnvart þessu þumbaðist hæstv. fjármálaráðherra síðastliðið vor og verður svo að koma hér með svona vandræðalegt frumvarp um eftirálagfæringu á þessu máli. Niðurstaðan var sú að fólk hefur beðið mánuðum saman eftir því sem það hafði reiknað með að fá í vaxtabætur á árinu. Ekki bætir úr skák þegar svo kemur í ljós að ríkisstjórnin ætlar bara alls ekkert að bæta þetta að fullu. Þá er ekki hægt að hafa um það önnur orð en þau að það kemur seint og illa það litla sem kemur frá ríkisstjórninni. Maður veltir því fyrir sér af hverju menn fást ekki til að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru og hvað svona feluleikur eigi að þýða. Var þetta svona óskaplega erfitt? Var það af því að þetta var flutt af stjórnarandstöðunni? Var það af því að utanaðkomandi aðilar vöktu athygli ríkisstjórnarinnar á því sem var að gerast? Er auðveldara að láta réttlætið ná fram að ganga ef ríkisstjórnin er pínd til þess frekar en ef hún bara fellst á það þegar henni er bent á að þarna verði fólk fyrir skerðingu nema gerðar séu tilteknar ráðstafanir? Ég veit það ekki, virðulegi forseti, en þetta er þá orðið eitthvað sálfræðilegt. Ekki er þetta efnislegt eða eitthvað sem varðar rök því þau lágu öll fyrir.

Ég tek líka undir það sem tveir síðustu ræðumenn á undan mér tóku upp og spurðu að, það eru hinar reikningslegu forsendur þessarar leiðréttingar. Hvernig á t.d. að taka tillit til þess að fólk hefur orðið af þessum fjárhæðum um margra, margra mánaða skeið? Hvaða vaxtakostnaður eða vandræði geta fylgt því? Ef eitthvað væri hefði átt að hafa leiðréttinguna heldur ríflegri en ella til að bæta fólki upp það óhagræði og þau vandræði sem þetta hefur haft í för mér sér. Það er ærin ástæða til að ætla, m.a. í ljósi hækkandi vaxta, hárra vaxta og af fleiri ástæðum, að fólk hafi orðið verr úti í þessu sambandi en hin eiginlega skerðing í beinum krónum mælt, sem fasteignaverðshækkunin hefur leitt til, ber með sér. Það er eiginlega augljóst mál að óþægindin liggja frekar á þá hliðina en að menn hafi notið þess á nokkurn hátt.

Síðan á að sjálfsögðu ekkert að rugla saman, annars vegar skerðingunni sem leiðir af fasteignaverðshækkununum og hins vegar skerðingunni sem leiðir af því, að því marki sem það raunverulega er þannig, að hækkandi tekjur valdi skerðingum. Það er auðvitað mjög misjafnt eftir einstaklingum. Dæmin sem reidd voru fram hér og reiknuð út af hv. þm. Atla Gíslasyni voru hlutlaus hvað það varðaði. Þau gengu út frá einstaklingum sem voru í óbreyttri stöðu hvað varðaði skuldir og tekjur og þar sem fasteignaverðshækkunin ein leiddi til skerðingarinnar.

Það er algerlega ósambærilegt. Þessi tvenn skerðingarákvæði eru algerlega ósambærileg. Vegna þess að hafi menn fengið hærri laun eru þeir auðvitað í allt annarri stöðu til að borga af lánum sínum heldur en ef hitt er veruleikinn að dæmið sé óbreytt að öllu öðru leyti en því að fasteignamat á íbúðinni eða húsinu sem fólk býr í hafi hækkað og ekkert annað breyst. Það er tala á blaði sem verður mönnum að sjálfsögðu að engu liði þegar kemur að því að borga af lánunum. Fólk sem ekki selur íbúðina sína nýtur þess ekki á nokkurn hátt þó að fasteignaverðið hafi hækkað og frekar hitt að það leiði til hærri gjalda á öðrum stöðum í kerfinu. Ef menn gera ekkert annað milli ára en að búa í sinni íbúð og reyna að láta enda ná saman og borga af lánunum sem á henni hvíla, og það eina sem hefur breyst er þessi hækkun fasteignaverðsins vegna blöðrunnar eða ástandsins á þeim markaði, þá myndast einfaldlega þetta gat í dæminu hjá fólki, sem getur numið verulegum fjárhæðum hjá þeim sem eru með bogann spenntan fyrir.

Þetta er dæmi um hegðun af hálfu ríkisstjórnarinnar og framgöngu sem mér finnst ákaflega dapurlegt að þurfa að horfa upp á, satt best að segja. Að það skuli svo þurfa að kúska ríkisstjórnina með samningum við aðila vinnumarkaðarins, sem reyna að nota þann þrýsting sem þeim tekst að skapa í tengslum við mögulega uppsögn kjarasamninga, til að fá einhverja málamyndaeftirálagfæringu sem þó dugar skammt í þessum efnum og reynist svo alls ekki fullnægjandi þegar á hólminn er komið.

Í raun og veru er þetta fyrirkomulag á engan hátt nógu gott, að það skuli vera einhvers konar geðþóttaákvörðunaratriði, ein breyta í þessu dæmi ef menn vilja gera eitthvað með greiðslumatið og þær forsendur sem verið er að reyna að leggja fyrir fólk til að taka ákvarðanir þegar það ræðst í fasteignakaup eða stillir af sitt dæmi. Þetta var innleitt á sínum tíma, m.a. og ekki síst í tengslum við breytingar á fjármögnun húsnæðislána. Menn vildu reyna að innleiða þar stöðugleika og kerfi sem tryggði fólki ákveðið öryggi og gerði því kleift að gera raunhæfar fjárhagsáætlanir inn í framtíðina, að ganga í gegnum greiðslumat var meira að segja lögskyldað eða innbyggður hluti í kerfinu eins og menn vita. Bankarnir hafa síðan tekið við því hlutverki. En eftir stendur að fólk reynir að gera þetta, að stilla upp greiðsluáætlun, fara í gegnum mat á greiðslugetu sinni og stemma af fjárfestingar sínar með hliðsjón af því, að kaupa ekki dýrari íbúð eða ráðast ekki í meiri fjárfestingu en dæmið á að gera mögulegt eða á að geta gengið upp miðað við aðstæður þess.

Þá kemur aðili eins og ríkisstjórnin og gerir grín að því öllu saman, gefur því langt nef. Og þó svo að hæstv. ríkisstjórn sé sýnt fram á hvað er að gerast kostar það margra mánaða eftirrekstur og atburðarás af því tagi sem við stöndum núna frammi fyrir að menn þar fáist til að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru en þó varla það, því að lagfæringin sem hér kemur er svo eins og raun ber vitni. Ég held því að gefa verði hæstv. ríkisstjórn algera falleinkunn fyrir framgönguna í þessum efnum, annað er ekki hægt að gera.

Ég vonast svo til að hv. þingnefnd fari rækilega ofan í saumana á reikningslegum forsendum þessa máls þannig að hægt sé að gera breytingar á frumvarpinu þótt seint sé, betra er seint en aldrei, má kannski segja, sem tryggi það að mönnum verði tryggðar raunvaxtabætur í samræmi við það sem menn gátu reiknað með áður en þessi fasteignaverðshækkun skall á og einkum það sem hér á við sérstaklega á milli áranna 2004 og 2005.

Þetta snýst ekki um slíkar fjárhæðir fyrir ríkissjóð eða í heildardæminu að það skipti neinum sköpum. Það er í raun og veru hálfhallærislegt að takast hér á um hluti sem skipta kannski nokkrum hundruðum milljóna króna til eða frá fyrir ríkissjóð í vaxtabótadæmi sem er upp á um eða yfir 5 milljarða kr. hvort sem er og í heildarfjárhag ríkisins sem hleypur á hundruðum milljarða eins og kunnugt er. En þetta getur skipt viðkomandi einstaklinga mjög miklu. Tekjulægri hópinn sem hefur reitt sig á vaxtabætur, sem allt í einu gufa upp af stærðargráðunni 100 til jafnvel upp í 200 þús. kr., munar alveg gríðarlega um það þegar þeim er allt í einu kippt í burtu og þær skila sér ekki eins og áætlanir gerðu ráð fyrir við álagninguna síðsumars.

Þetta þarf að skoða rækilega ofan í kjölinn og vonandi er hægt að gera eins gott úr því og hægt er með því að breyta upphæðum eða viðmiðunarmörkum þannig að raunveruleg lagfæring skili sér.