133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:33]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Vaxtabótakerfið er meingallað því að það er að borga vaxtabætur til hjóna sem eru með yfir milljón á mánuði í laun. En það sem fullyrt er hérna um að einstaka menn hafi ekki hækkað í launum, mig langar til að sjá það. Verkalýðshreyfingunni tókst að hækka lægstu laun um 15 þús. kr. síðasta sumar, bætur hafa hækkað sambærilega bæði hjá ellilífeyrisþegum og öryrkjum, sérstaklega lægstu laun. Þau hafa hækkað um 10–15% meðan hærri laun hafa hækkað prósentulega minna.

Ef einhver maður hefur ekki hækkað í launum þá held ég að sá hinn sami ætti að tala við verkalýðsfélagið sitt sem hefur þá ekki verið með í þessu samfloti allrar verkalýðshreyfingarinnar um að hækka lægstu laun, eða þá eitthvað er mjög skrýtið að, því að laun hafa almennt séð hækkað umtalsvert á síðasta ári og á síðasta sumri hækkuðu sem betur fer lægstu launin langt umfram það sem er hjá flestum öðrum og ég tel það mjög jákvætt. Það lagar líka stöðu þess fólks gagnvart þessum málum.

Ég er formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar sem þetta mál fer til. Ég mun því leggja til að nefndin skoði öll þessi dæmi, fari í gegnum mörg dæmi og reikni út hvort það sé ekki rétt sem ég er að segja, að hækkun eigna mínus hækkun skulda sé alltaf eða nánast alltaf undir þessum 25% sem við erum að tala um.