133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:35]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu að efnahags- og viðskiptanefnd fari ofan í saumana á þessu og reikni dæmi og ég held að hún ætti að fá til sín þá aðila sem gætu vel lagt nefndinni til mikla þekkingu og m.a. sá lögmaður sem ég nefndi áðan, Atli Gíslason, sem hefur langa reynslu af framtölum og var búinn að sýna fram á það með raunverulegum dæmum úr raunverulegu lífi fólks hvernig þetta kæmi út. Það þýðir ekkert að hrista hausinn, hv. þingmaður, þetta liggur svona. Ég er alveg viss um að lögmaðurinn er tilbúinn til þess að koma núna með álagningarseðla fólksins sem hann taldi fram fyrir og reka þá upp í nefið á efnahags- og viðskiptanefnd ef þess þarf og þá skulum við sjá hvort þetta sé ekki nákvæmlega eins og sagt var að þetta yrði hérna síðasta vor.

Talandi um meðaltölin einu sinni enn. Úr því að þetta er 7% hækkun umfram verðlag, það þýðir þá að einhverjir hafa hækkað minna, er það ekki, hv. þingmaður og stærðfræðingur? Meðaltal þýðir ævinlega það að sumir hafa hækkað meira og aðrir minna. Við vitum að misskiptingin hefur verið að aukast. Við vitum að ákveðnir hópar hafa verið að taka til sín gríðarlegar launahækkanir, þeir sem eru á efri endanum, og við vitum að það eru láglaunastéttir í landinu sem hafa ekki náð að rétta sinn hlut þar sem fólk er að flýja úr störfum í stórum stíl af því að það hefur verið kvalið á mjög lágum launum. Ég er algjörlega viss um að það eru fjölmennir hópar sem eiga hér í hlut sem hafa ekki gert mikið betur en að fá launahækkun sem nemur verðbólgu á árinu. Það held ég að sé veruleikinn, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Skoðum aðeins prósentuhækkanirnar á almennum kauptöxtum, t.d. þeirra sem liggja rétt ofan við 15 þúsund kr. hækkunina og lægstu launin. Það er áfram fólk sem hefur reitt sig á vaxtabætur, það er áfram fjöldi fólks í nákvæmlega þeim hópi. Kannski eru það einmitt lægri meðaltekjurnar þar sem menn hafa setið hvað alvarlegast eftir, fólk sem er með bogann spenntan fyrir.

Ég held því að við ættum að fara varlega í að ræða mannleg örlög í þessu samhengi sem meðaltöl.