133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:55]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég gengst við því að hafa kallað framgöngu ríkisstjórnarinnar í þessu máli dapurlega og ég stend við það. Mér fundust orðaskipti hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og ráðherra hér áðan um það hvort þetta skuli teljast skuld eða ekki og hvort þetta skuli bera vexti eða ekki algerlega segja í hnotskurn hversu vandræðalegt þetta er, þessi eftiráleiðrétting ráðherrans á hlutum sem blöstu við og lágu fyrir síðasta vor. Af einhverri undarlegri þrjósku valdi hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin að fara þá ekki í nauðsynlegar breytingar á lögunum sem hefðu getað stytt mönnum leið og komið í veg fyrir þessa eftiráleiðréttingu núna.

Menn gátu þá haft vaðið fyrir neðan sig og haft mörkin þannig að það væri ljóst að ef mönnum var sérstaklega sýnt um að missa ekki út of margar krónur væru þá frekar höfð neðri mörk á því sem líklegt væri að fasteignaverðshækkunin mundi skerða vaxtabætur en þau efri. Mér sýnist að í ljós hafi komið að menn voru mjög nálægt því að vera þar á réttu lagi þegar maður ber saman tillögurnar, upphæðirnar í breytingartillögu okkar frá síðasta vori, sem var felld, og svo því sem kemur inn í frumvarpið núna. Þá er ekki mikill munur þar á.

Má ég þá líka minna á að skerðingarmörkin eru ekki einhver nákvæmnisvísindi. Þau eru auðvitað einfaldlega pólitísk ákvörðun um tölur sem eru settar inn í lög. Mönnum var í lófa lagið á nýjum grundvelli að setja mörkin þannig að tryggt yrði að enginn yrði fyrir skerðingu. Það hefði þá ekki verið neinn héraðsbrestur þó að einhver fámennur hópur hefði fengið ívið meira en minna.

Varðandi það sem ég sagði hér um upphæðir sem skipta ekki sköpum stend ég við það. Ég var ekki að vísa til heildarupphæðar vaxtabóta, ég var ekki að vísa sérstaklega til þessara 500 millj., ég var að vísa til þess sem gætu kannski verið 100–200 millj. eða hvað það væri til þess að öruggt væri að menn bættu þetta að fullu. Ég stend við það. Það er ekki upphæð sem skiptir sköpum í ríkisbúskapnum hvort þarna fara út 100–200 millj. kannski meira en ella (Forseti hringir.) til að tryggja að allir fái sanngjarna leiðréttingu.