133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

lífeyrissjóðir.

233. mál
[17:03]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lagaákvæðum um lífeyrissjóði.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvíþættar breytingar á lögum um lífeyrissjóði. Annars vegar er lögð til breyting á lagaumhverfi lífeyrissjóða þess eðlis að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða verði hækkað til samræmis við það sem samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði, eða úr 10% í 12%. Samið hefur verið um 2% hækkun á mótframlagi vinnuveitenda á almennum vinnumarkaði í tveimur áföngum eða úr 6% í 7% frá og með 1. janúar 2005 og síðan úr 7% í 8% frá og með 1. janúar 2007.

Í frumvarpi sem lagt var fyrir 132. löggjafarþing var gert ráð fyrir að lágmarksiðgjaldið hækkaði fyrst í 11% þann 1. janúar 2006 og í 12% þann 1. janúar 2007. Þar sem það frumvarp varð ekki að lögum fyrir 1. janúar 2006, eins og að var stefnt, og æskilegt þykir að hækkanir á iðgjöldum komi til framkvæmda um áramót er hér lagt til að hækkun lágmarksiðgjaldsins miðist við 1. janúar 2007, og hækki þá lágmarksiðgjaldið í einu lagi upp í 12%.

Í I. kafla frumvarpsins er að finna tillögur um breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem fela í sér hækkun á lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóða úr 10% í 12%. Til að raska ekki gildandi kjarasamningum er jafnframt lagt til bráðabirgðaákvæði við lögin um að þar sem kveðið er á um að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skuli vera 10% í núgildandi kjarasamningi skuli heimilt að miða áfram við hlutfallstöluna 10% í 2. málslið 1. mgr. 2. gr. laganna þar til nýr kjarasamningur öðlast gildi.

Í II.–V. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á sérlögum um einstaka lífeyrissjóði til samræmis við þá hækkun á lágmarksiðgjaldi sem fjallað er um í I. kafla frumvarpsins. Snúa þær að því að hækka hlutföll þartilgreindra lagagreina til samræmis. Auk þess er lagt til að framangreind hækkun á lágmarksiðgjaldinu taki einnig til þeirra sjóðfélaga sem óska eftir að greiða áfram iðgjald eftir að starf þeirra eða staða er lögð niður.

Hins vegar er með frumvarpinu lögð til breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem varðar möguleika lífeyrissjóða sem njóta, eða nutu, bakábyrgðar ríkis, sveitarfélaga eða banka til að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sínum í samræmi við ákvæði 2. mgr. 39. gr. þeirra laga.

Samkvæmt núgildandi lögum eru slíkir lífeyrissjóðir undanþegnir 39. gr. laganna en sú grein kveður á um að leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að meira en 10% munur sé á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga, samkvæmt 1. mgr. 39. gr., er hlutaðeigandi lífeyrissjóði skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins.

Í ljós hefur komið að þegar 39., 51. og 54. gr. laganna eru lesnar saman þá virðist sem tilteknir lífeyrissjóðir eigi að halda sig innan þeirra marka sem sett eru í 2. mgr. 39. gr. laganna en sé hins vegar óheimilt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins þar sem slíkt stangist á við ákvæði 54. gr. laganna. Með öðrum orðum er viðkomandi lífeyrissjóði þá óheimilt að skerða réttindi þrátt fyrir að mismunur eigna og skuldbindinga sé umfram þau mörk sem fram koma í 2. mgr. 39. gr. Um nokkurs konar þversögn er því að ræða innan laganna. Þessi lagalega óvissa hefur haft ýmis vandkvæði í för með sér og er því með frumvarpi þessu lagt til að leyst verði úr þeirri óvissu og umræddum lífeyrissjóðum gert heimilt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sínum í samræmi við ákvæði 2. mgr. 39. gr.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.