133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

opinber innkaup.

277. mál
[17:29]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Sú þjónusta sem hv. þingmaður vitnar til varðandi hjúkrunarheimili er ekki útboðsskyld þó að upp hafi komið tilvik þar sem þjónustan hefur verið boðin út, þ.e. kannski er of mikið að segja boðin út en leitast við að nota þann grundvöll sem í útboðinu felst hvað það varðar. Út af fyrir sig er ekki loku fyrir það skotið að það verði gert þó að það sé ekki gert ráð fyrir neinum meiri háttar breytingum í þeim efnum. Ef hins vegar um það væri að ræða að útboð færi fram mundu að sjálfsögðu þessar reglur gilda um það í öllum meginatriðum.

Varðandi hins vegar það útboð sem hv. þingmaður nefndi með varðskipið á sínum tíma eru mjög takmarkaðar heimildir til þess að taka inn í útreikningana aðra þætti en þá sem beinlínis tengjast útboðinu. Hins vegar er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að það er mjög nauðsynlegt að gott samráð og samstarf sé á milli opinberra aðila og þeirra iðngreina innan lands sem að slíkum málum koma til þess að þar sé vitneskja um til hvers sé ætlast og að aðilar geti nýtt sér það að vera heimaaðilar og eiga þá að vita betur hvernig hlutirnir standa án þess að nokkuð sé verið að brjóta á öðrum. Einmitt í framhaldi af þessu tiltekna máli sem þarna um ræðir hefur verið tekið upp miklu meira og ítarlegra samstarf við Samtök iðnaðarins um slík málefni. Nýlega var skrifað undir samstarfssamning við þá aðila um hvernig ætti að standa að útboðum sem sérstaklega gætu tengst og stuðlað að nýsköpun íslensks iðnaðar. Ég held að þó nokkuð hafi miðað í þá átt að styrkja stöðu íslensks iðnaðar hvað þessi mál varðar og að þetta frumvarp og þær reglur sem því munu fylgja verði mjög jákvætt innlegg í slík mál.