133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[17:57]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú verið að fjalla um barnabætur í þessu frumvarpi þannig að það kemur málinu við þar sem ég ræddi hér um barnabæturnar. Það er alveg sama hvernig þetta mál er skoðað og borin saman staðan í barnabótakerfinu eins og hún var 1995 og hvernig hún er í dag, að í ljós kemur að barnabæturnar voru hagstæðari fólki árið 1995 en þær eru í dag. Útgjöld vegna barnabóta að raungildi voru hærri á árinu 1995 en þau eru í dag. Á föstu verðlagi voru útgjöld til barnabóta tæpir 6,5 milljarðar á árinu 1995 en á þessu ári eru útgjöld til barnabóta tæpir 6 milljarðar. Sem hlutfall af landsframleiðslu voru útgjöld til barnabóta um 1% árið 1995 en voru komin niður í um 0,5% árið 2005.

Hv. þingmaður hlýtur líka að muna að ótekjutengdar barnabætur voru greiddar með öllum börnum að 16 ára aldri á árinu 1995 en nú eru þær einungis greiddar með öllum börnum að sjö ára aldri. Ísland er raunverulega eitt landa innan OECD sem tekjutengir barnabætur og það er staðreynd að þetta eru láglaunabætur eins og ég hef hér verið að lýsa vegna þess að skerðingin er mjög mikil. Ótekjutengdi hlutinn var miklu hærri árið 1995 en hann var á þessu ári. Því er alveg sama hvernig þetta er borið saman. Barnabótakerfið var hagstæðara heimilunum í landinu á þeim tíma en það er í dag.

Varðandi það að lífeyrisgreiðslur beri fjármagnstekjuskatt eða sama hlutfall og hann en ekki tekjuskatt þá greinir okkur hv. þingmanni einfaldlega á um það. Hv. þingmaður telur það fjarstæðu að lífeyrisþegar borgi einungis 10% fjármagnstekjuskatt af sínum lífeyri en honum finnst allt í lagi að fjármagnseigendur (Forseti hringir.) með milljarða á milljarð ofan í fjármagnstekjur (Forseti hringir.) greiði einungis 10%.