133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[18:47]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla eingöngu að fjalla um lítinn þátt þessa frumvarps sem hér liggur fyrir. Það er 2. gr. frumvarpsins og ég verð að segja, herra forseti, að mér þykir miður að hæstv. fjármálaráðherra þurfi að víkja af fundi því ég hafði hugsað mér að beina til hans spurningu sem snertir þetta mál. En það gefst vonandi tækifæri til að ganga eftir svari hans við henni þótt síðar verði.

Ég vil taka þessa grein sérstaklega til umræðu en hún fjallar um það, eins og hér segir, með leyfi forseta:

„Styrkir sem foreldrar eða forráðamenn barns fá frá sveitarfélagi til að annast barn heima, frá lokum fæðingarorlofs fram til þess að það hefur leikskólavistun eða grunnskólanám, teljast ekki til tekna hjá móttakanda.“

Ég tel varhugavert að hvetja til þess með þessu móti að verið sé að borga mæðrum fyrir að vera heima með börn sín, jafnvel árum saman allt fram til þess að grunnskólaganga hefst. Þetta geta verið allt að fimm árum samkvæmt þessari tillögu og því sem vitað er frá yfirlýsingum hinna hægri sinnuðu sveitarfélaga sem hafa haft slíkar áætlanir uppi.

Tilboð af þessu tagi hafa verið kallaðar mömmugildrur vegna þess að í þær rata eingöngu konur, mæður. Þetta er ekki tilboð til beggja foreldra eða til feðra þó það segi í greininni. Við þekkjum það frá rannsóknum sem gerðar hafa verið erlendis að það eru mömmurnar sem falla í slíka gildru.

Það er augljóst öllum sem skoða að með því að konur stimpli sig út af vinnumarkaði í tvö til fimm ár þá veikist staða kvenna á vinnumarkaði verulega. Sú staðreynd að þær stimpli sig út á þennan hátt mun hafa hamlandi áhrif á starfsframa þeirra og laun. En konur standa nú þegar, eins og menn vita, mjög höllum fæti á vinnumarkaði hér á landi og bera ekki úr býtum nema um 66% af launum karla.

Herra forseti. Laun kvenna munu ekki hækka meðan þær eru heima eins og hér er verið að hvetja til. Þetta mun líka hafa áhrif á lífeyrisréttindi þeirra, á veikindarétt, á bætur ef slys ber að höndum, og eins og ég nefndi áðan, möguleika á starfsframa og þar fram eftir götunum. Staðreyndin er sú að þegar og ef þær fara aftur á vinnumarkað mun þeim reynast erfitt að fóta sig þar á nýjan leik.

Í athugasemdum við frumvarpið segir, herra forseti, að með greininni sé ætlað að styðja við foreldra sem leggja áherslu á að vera með börnum sínum eftir að fæðingarorlofi lýkur.

Það er augljóst mál að ef menn vildu bjóða mæðrum upp á raunverulegt val um að vera heima með börnum sínum væri ekki verið að líta til 30–40 þús. kr. greiðslna sem þarna er um að ræða að hámarki á mánuði, heldur kemur ekki annað í stað þess að vera úti á vinnumarkaðnum en að lengja fæðingarorlofið. En það er ekki verið að bjóða upp á það.

Það að hvetja með þessu móti til að konur séu heima gerir ekki annað en að auka á samviskubit og sektarkennd kvenna sem ekki geta og ekki hafa efni á því að vera heima þótt þær fengju þessar 30–40 þús. kr. að hámarki á mánuði.

Það segir í athugasemdum við frumvarpið að verið sé að líta til jafnræðis. Að þarna sé um samræmingu að ræða vegna þess að þær greiðslur sem sveitarfélagið innir af hendi til niðurgreiðslu á dagvistargjöldum séu ekki skattlagðar og því eigi greiðslur af þessu tagi ekki að vera skattlagðar heldur. Ég verð að segja, herra forseti, að þetta finnst mér hreinn útúrsnúningur. Þarna er um að ræða þjónustu sveitarfélags sem ekki er hægt að meta til skattgreiðslna eða skattskyldu með þessum hætti. Eða ætlar fjármálaráðherra að hvetja til þess að þeir sem ekki nota strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu fái skattafslátt og endurgreiðslur frá sveitarfélaginu? Eða þeir sem ekki nota gangstéttir eða gatnakerfið?

En það er þó ekki það jafnræði sem er verst brotið með frumvarpinu, heldur er það sú staðreynd að þarna er verið að leggja til að skattfrjálsar verði greiðslur sem lúta að því að halda konum heima með börn sín en ekki aðrar greiðslur, önnur fjárhagsaðstoð eða aðrar greiðslur frá sveitarfélaginu. Þarna er ekki um jafnræði að ræða þótt orðið samræmi og jafnræði komi fyrir í athugasemd við þessa grein.

Það sem verra er að ekki er gert ráð fyrir, eftir því sem ég best veit, að umönnunarbætur fyrir foreldra sem þurfa og verða að vera heima hjá langveikum börnum eða fötluðum njóti skattfríðinda. Slíkar bætur njóta engra skattfríðinda. Þvert á móti eru þær skattlagðar og notaðar til að skerða aðrar greiðslur þegar upp að ákveðnu marki er komið.

Ég hafði hugsað mér að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvar jafnræðið væri í þessu tilliti og hvort hann hyggist flytja frumvarp um skattleysi raunverulegra umönnunarbóta til þeirra foreldra og forráðamanna barna sem verða að vera heima, jafnvel eftir að 18 ára aldri barnsins er náð, vegna langvarandi veikinda eða fötlunar. Og þá til samræmis við þetta frumvarp sem hér er lagt fram.

Eins og ég sagði mun ég ganga eftir svörum frá hæstv. fjármálaráðherra við þessu þó á öðrum vettvangi verði eða síðar. En ég vil leggja áherslu á að þessi tillögugrein frumvarpsins er einungis til þess fallin að hvetja til þess að fleiri hægri sinnuð sveitarfélög í landinu snúi sér frá því að byggja upp leikskólakerfið og styðja þannig við barnafjölskyldur í umdæmi sínu og það mun bitna fyrst og fremst á stöðu kvenna á vinnumarkaði sem er veik fyrir.