133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[19:57]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir 15 árum og um það leyti sem núverandi ríkisstjórn tók við einkenndist þjóðfélagið af ofsköttun. Fyrirtækin voru ofsköttuð, þau sýndu engan hagnað. Það var enginn vilji til að sýna hagnað, það var enginn hvati til þess. Sköttum á fyrirtæki var aflétt og þau réttu úr kútnum, fóru að sýna mikinn hagnað og borga há laun, sem þau gátu ekki áður. Það er því beint samhengi á milli þess að vera með ofsköttun og drunga í þjóðfélaginu og í atvinnulífinu, atvinnuleysi o.s.frv. Sú árátta að vera stöðugt að reyna að jafna launin með því að skattleggja hærri tekjurnar meira, hagnað og slíkt, minnkar kökuna, þjóðarkökuna. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar að stækka kökuna þannig að allir hafi það miklu betra. Ég fullyrði að þeir sem hafa lægstu launin í dag eru miklu, miklu betur settir en þeir sem höfðu lægstu launin fyrir 10 eða 15 árum, miklu betur settir, bæði lífeyrisþegar og fólk með lægstu laun, sem betur fer.

Hv. þingmaður talaði um skattleysismörkin og hann notar 135 þús. kr. sem viðmiðun. Það væru skattleysismörkin ef skattarnir og persónuafslátturinn hefðu verið óbreyttir frá 1988 og ef persónuafslátturinn hefði hækkað eins og laun frá 1988. En það var vinstri stjórnin sem byrjaði að skerða persónuafsláttinn fyrstu árin þannig að aðalskerðingin kom fyrstu tvö árin, 1989 og 1990, áður en Sjálfstæðisflokkurinn komst að í stjórn. Ég held því að hv. þingmaður ætti að tala við þá flokka en ekki við Sjálfstæðisflokkinn.

Núverandi skattleysismörk eru svipuð og 1993 og hafa með síðustu hækkun (Forseti hringir.) náð því marki.