133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

fjölgun útlendinga á Íslandi.

[13:58]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Sú umræða sem við erum í varðandi þessi mál er nokkuð vandasöm og menn þurfa að gæta þess að fara ekki með umræðuna inn á það svið að hér sé verið að amast við fólki af ákveðnum litarhætti eða af ákveðinni trú.

Stefna Frjálslynda flokksins — það er rétt að gera hana aðeins að umræðuefni að gefnu tilefni. Það vill svo til að hún er óbreytt og stendur í þessari bók hérna, málefnabók Frjálslynda flokksins, og henni verður ekki breytt fyrr en við höldum þá landsfund ef við þurfum að breyta henni. sem við sjáum reyndar ekki.

Við tókum þá afstöðu í Frjálslynda flokknum á síðastliðnu vori þegar við fórum að skoða nánar þessi málefni um að hér yrði frjáls för launafólks inn í landið, að vara við því að nýta okkur ekki fyrirvarann að minnsta kosti til ársins 2009 og reyna þar af leiðandi að hafa stýringu á þessum málum, reyna að skipuleggja að taka vel á móti því fólki sem væri að koma hingað og koma í veg fyrir þá stöðu sem m.a. er nú að koma upp, að hér er mikill fjöldi fólks sem vissulega á rétt á að koma hingað miðað við núgildandi lög. En það er mjög hætt við því að umræðan verði á þeim nótum á komandi missirum, m.a. vegna þeirra breytinga sem örugglega verða á vinnumarkaði, að það dregur hér úr atvinnu ef að líkum lætur.

Við sjáum þegar tilhneigingu til þess að atvinnurekendur segja upp Íslendingum í byggingariðnaði og halda erlendu vinnuafli. Það vill svo til að við erum með kjarasamninga þar sem fólk vinnur sér inn starfsaldurstengd réttindi. Fólk fær hærra kaup yfirleitt með lengri starfsaldri. Þeir sem inn koma geta farið að vinna hér á lægri launum. Það er mjög mikil hætta á að það verði vandamál í framtíðinni.