133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

fjölgun útlendinga á Íslandi.

[14:00]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við höfum upplifað miklar breytingar á íslensku samfélagi á skömmum tíma. Ein þeirra er sú að hér á landi hefur innflytjendum fjölgað mjög hratt. Hliðar umræðunnar um málefni innflytjenda eru margar og á þeim tíma sem okkur er gefinn hér getur maður einungis komið inn á nokkrar þeirra.

Við megum ekki gleyma því hvað hefur drifið þessar breytingar en það hefur auðvitað verið hið góða atvinnuástand og hin mikla eftirspurn eftir fólki, eftir fleiri vinnandi höndum og fleiri skapandi hugum og það var þess vegna sem stjórnvöld féllust á breytingarnar sem gerðar voru í maí síðastliðnum. Þeir útlendingar sem hingað hafa komið hafa verið virkir atvinnuþegar frá fyrsta degi og ég held því fram að þeir hafi breytt þenslu í hagvöxt og það er mikilvægt að halda því til haga.

Þróunin hefur auðvitað orðið hröð og það er ekkert skrýtið að sumir staldri við og það er auðvitað full ástæða til að fylgjast enn grannt með þróun mála, rétt eins og hæstv. félagsmálaráðherra kom inn á í máli sínu áðan. Við eigum auðvitað að þora að ræða þessi mál og þora að horfast í augu við breytingarnar. Við megum auðvitað ekki stimpla hvert annað eða stimpla okkur út úr umræðunni, hún verður að vera byggð á rökum, vera málefnaleg og yfirveguð og mér finnst að tónninn á áherslum Frjálslynda flokksins hafi breyst bara nú á síðustu tveim dögum, sem sýnir að umræðan kallar ýmislegt fram.

Frú forseti. Auðvitað horfum við til reynslu nágrannaþjóða okkar hvað þetta varðar. En það er mjög mikilvægt að halda til haga sérstöðu Íslands. Hér er atvinnuþátttaka útlendinga 86% meðan Danir eru að reyna að ná því hlutfalli upp í 50%. Það gefur okkur allt önnur færi á því að aðlögun útlendinga gangi vel hér á landi. Stofnanirnar þurfa auðvitað að taka sig á eins og við höfum verið að fara yfir og ég get ekki látið hjá líða að ræða um fjármálin og peninga til málaflokksins. Það er mikilvægt að við sem höfum fjárlagafrumvarpið til umræðu förum vandlega yfir það og veitum meira fjármagn til þessara mála. Við verðum að búa svo um hnútana að innflytjendur eigi þess kost að læra íslensku en tungan er lykillinn að þátttöku í samfélaginu og samskiptunum sem við þurfum að eiga. (Forseti hringir.) Án tungumálsins tapar orðtakið „maður er manns gaman“ merkingu sinni. Við sem samfélag, einstaklingarnir sjálfir sem hingað kjósa að koma, (Forseti hringir.) og atvinnurekendurnir, við verðum öll saman að bera ábyrgð á því að aðlögun útlendinga takist.