133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

fjölgun útlendinga á Íslandi.

[14:11]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu sem hefur að miklu leyti verið málefnaleg en ég sé að það hefur slegið hér í brýnu milli hv. stjórnarandstæðinga eftir síðustu ræðu, sem mér fannst nú reyndar gjörsamlega með ólíkindum og finnst sýna fram á að hv. málshefjandi var ekki bara kominn út á tún heldur alveg ofan í skurð. Hagfræðikenning hans í lokin var náttúrlega alveg fráleit, ég held að hann ætti að hugsa þau mál betur.

Ég vil ítreka það, virðulegur forseti, að staðan eins og hún hefur verið í samfélaginu að undanförnu og er núna er sú að hér er nánast ekkert atvinnuleysi, það er mikil atvinnuþátttaka almennt í samfélaginu, mikil eftirspurn eftir vinnuafli, hér er mikið að gerast í atvinnulífinu og hagkerfinu. Við erum á Evrópska efnahagssvæðinu, sem er einn vinnumarkaður, eins og fram hefur komið, og hingað kemur fólk til þess að starfa hjá okkur og það er auðvitað jákvætt og gott mál. Ég tel að það hafi verið jákvætt og eðlilegt að gera þá breytingu sem var gerð 1. maí síðastliðinn og ég rakti það í fyrri ræðu minni. Ég vil einnig taka fram að það er einkenni á íslensku samfélagi hvað fólk af erlendu bergi brotið sem hér dvelur er virkt á vinnumarkaði. Það er mun virkara á vinnumarkaði hér en við sjáum víðast hvar annars staðar.

Ég vil einnig ítreka það, virðulegur forseti, að það hefur mikil vinna verið í gangi, samstarf milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins varðandi þau mál sem hér eru til umræðu, mjög gott samstarf sem er auðvitað grundvöllur þess að við getum áfram þróað vinnumarkað okkar með þeim hætti sem við viljum gera, og höfum gert, þannig að ég vil lýsa ánægju með það samstarf. En ég verð að ljúka umræðunni með því að ítreka það einnig að ábyrgð okkar sem störfum á Alþingi er mikil í umræðu eins og hér fer fram og ég hvet okkur öll til að halda okkur á málefnalegum nótum þannig að umræða um þessi mál geti verið með þeim hætti sem henni ber.