133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

95. mál
[14:28]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að sverja af mér fordóma gagnvart fjármálamarkaði. Ég tel mig ekki vera þess umkomna. Ég er hins vegar sannfærð um að fjármálafyrirtækin hafa á að skipa verulega klóku starfsafli og kröftum sem hafa nýtt tækifæri sín til fulls og kannski eru ósótt tækifæri einhvers staðar handan við hafið. Ekki kann ég svo vel á það. Hv. þm. Birgir Ármannsson er betur að sér í þeim efnum en ég. Ég treysti því alveg þegar hann segir ónýtt tækifæri til staðar. En ég vil leyfa mér að segja að skoðun mín og míns flokks er að það eigi að treysta á hugmyndaauðgi og krafta þeirra sem starfa hjá fjármálafyrirtækjunum til að nýta þau tækifæri sem mögulegt er án ívilnana.

Ég vil horfa með allt öðrum augum til listgreina. Listir byggja á annars konar sköpunarafli, krafti sem er sprottinn af hugmyndaauðgi einstaklinga og sköpunarþörf, að fólki liggur eitthvað á hjarta og telur sig geta gert eitthvað sem iðulega er mannbætandi og gott fyrir samfélagið. Ég deili hins vegar alveg þeim sjónarmiðum að öll fyrirtæki sem greiða skatta í ríkissjóð láta auðvitað gott af sér leiða. Ég er ekki að tala niður til fjármálafyrirtækjanna hvað það varðar. Það dettur mér ekki í hug að gera.

Ég treysti aftur á móti á hugmyndaauðgi og skapandi kraft þeirra sem starfa hjá fjármálafyrirtækjum til að sinna sínum málum hvað þetta varðar án ívilnana. En ég kem til með að mæla með því hvar sem er og hvenær sem er að listir fái ívilnanir sem þessa og jafnvel ekki bara kvikmyndaiðnaðurinn heldur líka í auknum mæli leikhús eða danslistin sem er í auknum mæli að verða vinsæl á erlendri grund.