133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

95. mál
[14:46]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem segir að þetta skuli vera íslenskt fyrirtæki með íslensk laun og íslenska leikara. Hér gætu starfað erlend fyrirtæki með erlenda leikara með ofurlaun og fengið til þess styrk. Það sem hv. þingmaður er að dásama er í rauninni það að þessi stórfyrirtæki, milljónafyrirtæki eða milljarðafyrirtæki, fái styrk til að greiða ofurlaun.

Hvað varðar það mat hv. þingmanns að sértækar aðgerðir til stóriðju séu eitthvað verri en sértækar aðgerðir til kvikmyndagerðar þá er það dálítið sérstakt að hv. þingmaður leggi siðferðilegt mat á ákveðna atvinnustarfsemi gagnvart annarri. Margar kvikmyndir eru að mínu mati vafasamar varðandi siðferði, t.d. ofbeldi og annað slíkt sem í þeim kemur fram. Menn geta því haft ýmsar efasemdir um það líka. Ég mundi vilja að öll fyrirtæki sætu við sama borð og fengju lipra, góða og einfalda skattlagningu en ekki sértækar aðgerðir.