133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[15:24]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða nokkur atriði við hæstv. ráðherra varðandi þetta frumvarp. Það tengdist réttilega, eins og hann kom inn á áðan, frumvarpinu sem við munum ræða hér á eftir um hina svokölluðu Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Ég sé hérna að ein af helstu breytingunum í fyrsta lið við þessi lög um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins er að sjóðurinn muni ekki veita styrki eins og heimild er fyrir samkvæmt gildandi lögum. En það er þannig, virðulegi forseti, að sprotafyrirtæki, fyrirtæki sem eru að hefja vöruþróun og nýsköpun, þurfa talsvert langan tíma áður en varan fer að skila arði. Við höfum lýst yfir áhyggjum hvað þessi mál varðar hér á landi vegna þess að það er allt of lítill stuðningur til þessara fyrirtækja á þeim tíma sem þau eru að byggja sig upp hér á landi. Því er hætt við að við missum þau burt.

Þá kom fram í umræðum innan iðnaðarnefndar á síðasta ári þegar við ræddum hina svokölluðu Nýsköpunarmiðstöð Íslands, að vakin var athygli okkar á því að úthlutanir Tækniþróunarsjóðs til sprotafyrirtækja væru eingöngu um 16% af öllum úthlutunum á meðan 84% færu til rannsóknastofnana ríkisins og háskólanna.

Ef fella á út styrkina þarna, ef þetta er staðreynd varðandi úthlutanir Tækniþróunarsjóðs þá erum við í verulegum vanda hvað varðar sprotafyrirtækin og þurfum að fara að mæta þeim með öflugum hætti. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji koma til greina að fara þá leið sem til dæmis Norðmenn hafa farið og fleiri ríki, að endurgreiða hluta af þróunarkostnaði þessara fyrirtækja meðan þau eru í uppbyggingu.