133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[15:58]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég andmæli þessari túlkun hv. þingmanns, að nýsköpun geti einungis þrifist utan opinbera geirans. Það er bara einfaldlega rangt. Ég taldi hér upp dæmi frá Orkustofnun, úr skólum, úr hjúkrunarheimilum og þar fram eftir götunum þar sem er stunduð bullandi nýsköpun.

En hv. þingmaður leggur annan mælikvarða á það nýsköpunarstarf sem fram fer í opinbera geiranum af því þar er höndlað með fjármuni hins opinbera og opinberir starfsmenn leggja annað mat á sitt verkefni en hv. þingmaður, nefnilega faglegt mat, þar sem áhættan felst í því að feta inn á nýjar slóðir í starfinu. Það er fagleg áhætta, ekki endilega fjárhagsleg áhætta, en áhætta engu að síður.

Hið opinbera annast mörg verkefni í samfélagi okkar og þar greinir okkur á, mig og hv. þingmann. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður vilji helst losa ríkið undan flestum þeim verkefnum sem það fæst við. Hann er sennilega í hópi fárra anarkista hér á þingi. En við höfum ríkisvaldið, með skóla, með hjúkrunarheimili, Orkustofnun og þær stofnanir sem ég nefndi áður. Þar á sér stað veruleg nýsköpun. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður geti fallist á það.

Ég hlýt að andmæla því sem hann segir um opinbera starfsmenn sem margir hverjir sinna frábæru starfi í nýsköpun og eiga ekki að sitja undir slíkum umsögnum og dómum sem hv. þingmaður veitir þeim úr ræðustóli.