133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[15:59]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að tala um nýsköpun og sprotafyrirtæki í atvinnulífinu. Það sem hv. þingmaður er að tala um er nýsköpun hjá opinberum aðilum, sem er allt annars eðlis. Þar vinna menn í vernduðu umhverfi og taka ekki persónulega áhættu. Að minnsta kosti ekki fjárhagslega. (Gripið fram í.)

En mér finnst slæmt þegar menn eru orðnir svo rökþrota að þeir kalli aðra þingmenn, hv. þingmaður talaði þannig um mig, stjórnleysingja og eltandi peninga. Ég sé ekki hvað það kemur þessu máli við eða málefnalegri umræðu. Við erum að ræða um hvort að ríkið eigi að taka þátt í nýsköpun eða ekki og ég hef þá skoðun að ríkið sé ekki best til þess fallið að taka þátt í nýsköpun. Enda hefur það sýnt sig að fjármunir hafa tapast í stórum stíl í þessum nýsköpunarverkefnum. Það er mjög erfitt að benda á dæmi sem hafa virkilega gengið upp með aðstoð ríkisins.

Ég er á móti þessu frumvarpi og tel að það muni ekki bæta stöðu íslensks atvinnulífs. Það væri hægt að gera margt annað. Það mætti nota sambærilega peninga og fjármuni til að gera almennar reglur sem hamla a.m.k. ekki nýsköpun eins og hún er í dag.