133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[16:13]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var merkileg ræða og full af — ég veit ekki hvað ég á að kalla þetta, ekki var þetta málefnalegt. Í fyrsta lagi segir hann að ég sé með róg um opinbert starfsfólk. Hann segir líka að ég hafi sagt að það vinni ekki vinnuna sína. Hvenær í ósköpunum sagði ég það? Ég tók sérstaklega fram að opinberir starfsmenn ynnu, að mínu mati, vinnu sína mjög vel. Ég tók það sérstaklega fram.

Ég sagði ekki að þeir færu illa með fé. Alls ekki. Ég sagði það hvergi nokkurs staðar. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður er að fara með svona dylgjum. Svo talar hann um að honum hundleiðist og hann talar um róg. Hann talar um að ég hafi verið að rugla. Er þetta málefnalegt? Nei. Ekkert af þessu er málefnalegt.

Svo talar hann um að glæsilegustu gjaldþrotin séu hjá einkaaðilum. Þar kom hann að punktinum, frú forseti. Þeir sem eru í atvinnulífinu með eigin peninga bera ábyrgð. Ef illa fer bera þeir ábyrgð með því að tapa. (Gripið fram í: Annarra peningum líka.) Nei, þeir tapa yfirleitt eigin peningum fyrst og fremst. Það er áhættan sem þeir taka. Þannig er því ekki háttað með þá sem sýsla með opinbert fé. Þar liggur akkúrat hundurinn grafinn. (Gripið fram í: … gjaldþrota …) Ég var alls ekkert að segja það að allir opinberir starfsmenn ynnu ekki vinnuna sína eða mundu ekki fara vel með peninga. Þeir gera það allir. Nánast allir gera það. Ég mundi fullyrða það.

En þeir eru ekki best til þess fallnir að hætta fé. Það er það sem ég átti við. Það eru aðrir sem eru betur til þess fallnir að hætta fé. Trillukarl á Vestfjörðum tekur áhættu o.s.frv. Það er fjöldi aðila í þjóðfélaginu sem tekur áhættu. Það sem ég var að segja var að opinbert fé er ekki gott í það að taka áhættu vegna þess að það krefst ekki ábyrgðar sem felst í „glæsilegu“ (Forseti hringir.) gjaldþroti.