133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

frumvörp um eignarhald orkufyrirtækja.

[12:12]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Mér kemur í rauninni ekkert á óvart í þessum efnum frá Framsóknarflokknum eða þessari einkavæðingarríkisstjórn. Enn dregur Framsókn hér (Gripið fram í.) einkavæðingarvagn orkugeirans. Þetta liggur fyrir. Ríkið kaupir Landsvirkjun og svo er tilkynnt að það eigi að stofna um það sérstakt eignarhaldsfélag og af því að fjárhagsstaða Landsvirkjunar er svo slæm þá er jú sjálfsagt að taka aðrar samfélagseignir landsmanna eins og Rarik og Orkubú Vestfjarða og leggja þær inn í Landsvirkjun til þess meðal annars að halda uppi og standa undir þeim gríðarlega stóriðjukostnaði sem Landsvirkjun situr uppi með. Aftur og aftur er undirbúningi undir áframhaldandi einkavæðingu raforkugeirans velt á almenna notendur í landinu. En það kemur okkur ekki á óvart. Bæði formaður Sjálfstæðisflokksins og hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra lýstu þessu sem stefnu sinni sem núverandi iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins fylgir eftir.

Ég tek að vísu undir orð hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að það væri þá lánið meira ef ríkisstjórnin afturkallaði þegar í stað þessar hugmyndir sínar í staðinn fyrir að leggja það á alla landsmenn núna að taka á sig stóriðjukostnaðinn. Vestfirðingar verða að leggja Orkubú Vestfjarða inn til þess að standa undir stóriðjuskuldum Landsvirkjunar. Rarik, sem er byggt upp af sveitarfélögum og notendum vítt og breitt um landið, verður núna að leggja sitt fyrirtæki líka inn í Landsvirkjun til þess að bera stóriðjutollinn þar. Allt er þetta síðan gert til að undirbúa frekari einkavæðingu í geiranum. Það á ekki að efla samkeppni. Nei, það á að undirbúa fyrirtækið til að vera seljanlegra, Landsvirkjun. Það á leggja samfélagslegar eignir eins og Rarik og Orkubú Vestfjarða inn í Landsvirkjun til þess að hún verði seljanlegri. Allt er það gert í nafni einkavæðingar og markaðsvæðingar sem Framsóknarflokkurinn hefur stutt og dregið vagninn svo dyggilega í þessari ríkisstjórn. (Forseti hringir.) Það er skömm að því, frú forseti, að þetta gangi yfir.