133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

útsendingar svæðisútvarpsins á Austurlandi.

125. mál
[12:32]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er vægt til orða tekið afar sérkennilegur málflutningur að ekki sé hægt að taka neinar ákvarðanir hjá Ríkisútvarpinu fyrr en búið er að ákveða hvert rekstrarformið verður til framtíðar. Við höfum heyrt þennan söng allt of lengi. Það segir okkur að afar brýnt er, og ég er að því leytinu til sammála hæstv. ráðherra, að við afgreiðum það frumvarp sem fyrst þannig að því óvissuástandi linni sem allra fyrst. En það þarf ekkert ohf. til að taka ákvarðun sem þessa og sýnir í raun hversu röksemdafærslan er komin langt út fyrir þau eðlilegu mörk sem hægt er að gera til slíkrar röksemdafærslu.

Ég vildi nota þetta tækifæri til að vekja athygli á því eins og fram hefur komið að svæðisútvarpið á Austurlandi útvarpar aðeins fjóra daga vikunnar, en það hefur margoft komið fram hjá starfsmönnum þar að það er allt of skammur tími vegna þess að efnið er miklu meira sem þeir raunverulega hafa tilbúið til útsendingar. En það eru aðrir þættir líka hjá svæðisútvarpinu á Austurlandi sem vert er að vekja athygli á vegna þess að þar er húsnæði mjög stórt og rúmt og þar væri hægt að efla mjög mikið ýmsa aðra starfsemi Ríkisútvarpsins, margs konar dagskrárgerð. Þetta hefur raunverulega oft verið sagt en því miður aldrei orðið að veruleika.