133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

útsendingar svæðisútvarpsins á Austurlandi.

125. mál
[12:33]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hér er spurt um hvort eigi að senda út og segja fréttir alla virka daga hjá svæðisútvarpinu á Austurlandi. Á Suðurnesjum brennur aftur á móti spurningin: Á ekki að taka upp útsendingar svæðisútvarps á Suðurnesjum? Það eru tæp tvö ár síðan ég spurði hæstv. ráðherra um þetta og fékk lítil svör um að til stæði að reka svæðisútvarp á Suðurnesjum. Því vil ég spyrja að því aftur vegna þess að svæðisútvarp hefur ekkert að gera með fjarlægð frá Reykjavík. Það er t.d. rekið svæðisútvarp á Selfossi fyrir Suðurland og svæðisútvarp vekur samkennd á svæðum. Það tekur fyrir málefni svæðisins og svæðisbundið efni og því skilur maður ekki alveg hvernig stendur á því að svæðisútvarp Ríkisútvarpsins er bundið ákveðnum svæðum, en þegar önnur svæði og sveitarstjórnarmenn þar leita stíft eftir því við ráðuneyti hæstv. menntamálaráðherra að sett verði upp svæðisútvarp á Suðurnesjum þá er svarið alltaf nei. Mér þætti vænt um ef ráðherra hefði tíma í svari sínu á eftir að svara mér hvort til stendur að setja upp svæðisútvarp á Suðurnesjum eða ekki. Eða hvort hæstv. menntamálaráðuneyti ætlar alls ekki að verða við þeim óskum sem komið hafa frá sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum þess efnis að þar verði sett upp svæðisútvarp.