133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

útsendingar svæðisútvarpsins á Austurlandi.

125. mál
[12:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir það svar sem gefið hefur verið um að innan Ríkisútvarpsins sé fullur áhugi á því að bæta starfsemi svæðisstöðvanna og auka þar með útsendingartíma þeirra og hafa það alla virka daga, sama hvort það er á Austurlandi eða annars staðar. En ég er allsendis ósammála hæstv. ráðherra um að þessi ákvörðun þurfi endilega að bíða samþykktar eða ekki samþykktar á frumvarpinu um Ríkisútvarpið eða breyta því í ohf. Og þó að komið sé frumvarp frá ráðherra um þetta má ekki setja allt í biðstöðu, það má ekki stoppa alla framför á Ríkisútvarpinu á meðan. Það gæti þá gefið manni tilefni til að hugsa: Bíddu, er þá verið að svelta einhverja til fylgis? ef maður notar svo ljótt orðbragð.

Ég tel því að Ríkisútvarpið ætti að gera þetta strax en ekki að bíða. Þetta er viðkomandi svæðum mikilsvert og gott. Nú er það svo, virðulegi forseti, að því miður eru allt of margir burtfluttir einstaklingar frá þessum svæðum. Nú geta þeir hlustað á fréttir að heiman á netinu og gerir maður það oft en jafnframt, eins og kom fram hjá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni, hafa verið uppi áform um að efla svæðisstöðvarnar meira til að vinna dagskrárefni sem ekki hefur gengið eftir og segir mér svo hugur, virðulegi forseti, að það sé vegna fjárskorts. Allt of oft finnst mér ég hafa heyrt það bæði í fyrri störfum mínum og nú í störfum sem þingmaður að þessar svæðisstöðvar geti oft ekki fylgt því eftir, tekið upp fréttatengt efni eða dagskráratriði sem þeir vildu gjarnan gera og þurfa þá að færa sig frá höfuðstöðvum sínum vegna fjárskorts, vegna þess að jafnvel aksturspeningar eða keyrslupeningar viðkomandi stofnunar eru búnir.