133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

menningarsamningar.

134. mál
[12:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra um menningarsamninga og gerð slíks samnings fyrir Suðurnes. Menningarsamningar hafa verið gerðir milli ráðuneytisins og Samtaka sveitarfélaga á ákveðnum svæðum. Ef ég man rétt er í gildi menningarsamningur á Austurlandi, menningarsamningur á Vesturlandi og sérstakur samningur við Akureyri varðandi menningarmál.

Önnur svæði á landinu hafa horft til þess að þessir samningar hafa skilað, virðist vera, góðum árangri. Ég veit um svæði sem hafa sótt á um gerð menningarsamninga milli svæðanna og menntamálaráðuneytisins en lítið gengið í þeim samningaviðræðum.

Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem haldinn var fyrir skömmu var gerð ályktun þar sem aðalfundurinn taldi mikilvægt að ráðist yrði í gerð menningarsamnings milli Suðurnesja og menntamálaráðuneytisins. Það kom fram í ályktun að slíkir samningar hefðu haft í för með sér stóraukna áherslu á eflingu menningarstarfs og að samningarnir hefðu tryggt fjárhagslegan grundvöll slíks starfs þar sem þeir hafa verið í gildi.

Aðalfundurinn lagði áherslu á það við stjórn Sambandsins að þegar yrðu hafnar viðræður við ráðuneyti menntamála um að gera slíkan samning og var það von fundarmanna að slík samningsgerð tæki skamman tíma.

Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort ráðherra sjái því eitthvað til fyrirstöðu að gerður verði menningarsamningur við sveitarfélögin á Suðurnesjum ákveði þau að leita eftir slíkum samningi.

Eins og ég sagði áðan virðist hafa verið erfitt að fá slíka samninga kláraða þótt vilji hafi verið fyrir hendi hjá báðum aðilum, og því er spurt í öðru lagi: Hvað má ætla að gerð slíks samnings taki langan tíma?

Þegar upp er staðið hlýtur alltaf líka að vera spurningin þegar ráðuneyti gera svona samninga við ákveðin svæði á landinu að jafnræði ríki á milli svæða, og því er eðlilegt að spurt sé hvar slíkir samningar séu í gildi nú og hver sé áætlaður kostnaður ríkissjóðs við þá samninga sem í gildi eru.

Það er rétt að vekja athygli á því að í fjáraukalögunum sem við ræddum hérna 10. október var sótt um 120 millj. kr. viðbótarfjárveitingu fyrir þetta ár í gerð menningarsamninga. Því er rétt að spyrja hæstv. ráðherra líka hvort þessar 120 millj. væru til að greiða fyrir þá samninga sem í gildi eru nú þegar eða hvort þetta eru fyrirheit um það að ákveðin svæði og sveitarfélög geti fengið menningarsamning við menntamálaráðuneytið á þessu ári og því séu til fjármunir á þessu ári til að byrja að greiða inn eftir slíkum samningum.

Tilgangur menningarsamninganna er náttúrlega að efla menningarstarfið í landshlutunum og beina stuðningi ríkisins í ákveðinn farveg og búa til form fyrir samstarf ríkisins og sveitarfélaganna í þessum efnum. Það er mjög mikilvægt fyrir sveitarfélög og ákveðin svæði að ná slíkum samningi við ráðuneytið og því eru þessar spurningar fram settar.