133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

menningarsamningar.

134. mál
[12:59]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt að fagna þeirri yfirlýsingu sem fram kom hjá hæstv. menntamálaráðherra, að stefnt sé að því um áramót að ganga frá öllum menningarsamningum við þau svæði sem ekki hafa slíka samninga nú þegar. Ég get tekið undir með hæstv. ráðherra að sá samningur sem fyrst var gerður fyrir Austurland hefur skilað gífurlegum árangri. Þar er ekki bara betra skipulag og meiri heildarsýn yfir fjármagnið sem frá ríkisvaldinu kemur heldur hefur aukið fjármagn komið í þennan málaflokk frá sveitarfélögum. Eins og hæstv. ráðherra nefndi hefur ábyrgð sveitarfélaga á málaflokknum líka aukist. Þetta er auðvitað allt til bóta.

Vegna hugmynda hæstv. ráðherra um hvernig þessu verði skipt í svæði þá vakti það athygli mína að það er eingöngu Suðurkjördæmi sem bindur ráðherrann við kjördæmamörk. Ég er ekki viss um að kjördæmin séu hentug eining í þessu samhengi fyrir utan það að ég efast um að kjördæmin séu hentug eining sem slík. Þar af leiðandi finnst mér ekki rétt að binda það við kjördæmin, að það sé miklu nær að binda það frekar við þau samtök sem til eru, þ.e. þar sem sveitarfélögin vinna saman.