133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

menningarsamningar.

134. mál
[13:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör. Það kemur fram að það ekkert er því til fyrirstöðu að gera menningarsamning við sveitarfélögin á Suðurnesjum. Þó kom fram í svari hæstv. ráðherra að ráðherra vildi tengja allt Suðurkjördæmið saman og yrðu stjórnir sveitarfélaga á Suðurnesjum og Samband sveitarfélaga á Suðurlandi að ná samkomulagi um að sækja saman um gerð menningarsamnings fyrir svæðið.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra, eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson vakti athygli á: Af hverju gilda aðrar reglur um Suðurkjördæmi? Í gildi er samningur við Akureyri og verið er að tala um að gera samning við Eyþing. Gera á samning bæði við Norðurland vestra og Vestfirði en síðan er talað um Suðurland, að það þurfi að sækja um þetta sem heild. Ég vildi aðeins fá að heyra hjá hæstv. ráðherra af hverju mismunandi kröfur eru gerðar til svæðanna þegar kemur að því að gera samninginn.

Það var gott að heyra að 120 millj. kr. í fjáraukanum eru viðbótarfjármunir inn í gerð menningarsamninga. Gott væri ef hæstv. ráðherra gæti svarað því hvort deila megi í þá tölu með fjórum þar sem um er að ræða fjóra samninga sem hæstv. ráðherra minntist á áðan og þetta séu um 30 milljónir á hvert svæði. Eða eftir hverju er farið þegar fjármunum er útdeilt?

Það vakti sérstaka ánægju mína að heyra frá ráðherra að að sjálfsögðu séu Suðurnes ekki undanskilin þegar kemur að gerð menningarsamninga. Ég spurði um gerð vaxtarsamninga í vikunni sem leið og þá svaraði hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra því til að ekki kæmi til greina að gera slíkan samning við Suðurnes og fór í eins konar hártoganir í því efni, að ekki væri hægt að gera slíkan samning við svæði sem væri eins lítið og Suðurnes heldur þyrfti það að gilda um stærri svæði.

Ég spyr hæstv. ráðherra að lokum: Ef stjórnir Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og Suðurlandi komast að þeirri niðurstöðu að betra sé að sækja um menningarsamning hvor í sínu lagi, mun ráðherra verða við slíku erindi?