133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

framboð verk- og tæknináms.

218. mál
[13:30]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur fyrir að koma fram með þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Við í fjárlaganefnd og menntamálanefnd höfum verið í ágætu samstarfi við hæstv. ráðherra og ráðuneyti hennar að fara yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á reiknilíkaninu. Við höfum ekki klárað þá vinnu og það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem erum í stjórnmálum að við gerum okkur grein fyrir hvaða afleiðingar slíkar breytingar hafa í för með sér. Við hittum nú síðast í morgun fulltrúa frá Félagi íslenskra framhaldsskóla og þar komu m.a. fram áhyggjur af verknámi og minni skólum og ekki síst á landsbyggðinni.

Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna, ef við meinum eitthvað með því að við viljum halda landinu í byggð, að standa vörð um skóla á landsbyggðinni og kannski ekki síst þá minnstu skóla. Það er þannig að þær stofnanir eru undirstaða í viðkomandi byggðarlögum og mjög mikilvægt að við skoðum þessi mál í hörgul og ég þakka hæstv. ráðherra svörin.