133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

framboð verk- og tæknináms.

218. mál
[13:35]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Iðnnám hefur verið á undanhaldi um áratugaskeið í íslensku menntakerfi og núna þegar sótt er að framhaldsskólanum með skertum framlögum óttast að sjálfsögðu margir um framtíð starfsnámsins.

Tillögur starfsnámsnefndarinnar í fyrra voru mjög af hinu góða og gangi þær fram yrði það heillaskref fyrir framhaldsskólann allan. Sérstaklega ef þær tillögur gengju fram að þar með væri fyrirhuguð stytting sem þrisvar hefur komið fram, styttingin á námi til stúdentsprófs, að baki og úr yrði eitt framhaldsskólanám þar sem þeim skilum á milli bóknáms og verknáms væri að fullu eytt. Þar með væri gengið fram til góðs.

Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort það væri ekki alveg á hreinu að hin margframkomnu styttingaráform væru úr sögunni sem slík og út úr tíu skrefa samkomulaginu kæmi að lokum tillaga í ætt við tillögu starfsnámsnefndarinnar, sem væri mjög til bóta.