133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

framboð verk- og tæknináms.

218. mál
[13:39]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að ræða þessi mál. Ég verð að segja eins og er að ég fékk náttúrlega algjört áfall eins og svo margur annar þegar ég sá fjárlagafrumvarpið í haust og þann heiftarlega og svakalega niðurskurð sem átti og á að fara í gagnvart framhaldsskólunum.

Virðulegi forseti. Ég er ansi hrædd um að hér sé verið að beita einhvers konar sjokkmeðferð til að beina sjónum frá reiknilíkaninu, sem þarf að laga og það vita allir, vegna þess að þegar þetta verður dregið til baka verða allir svo fegnir að umræðan um reiknilíkanið fellur niður í ár að öðru leyti en því að draga til baka þessar niðurskurðartillögur ráðuneytisins.

Ég er sammála þeim sem hér hafa talað um að það sé alveg augljóst á þessari aðgerð og þeim skilaboðum sem komu úr menntamálaráðuneytinu með fjárlagafrumvarpinu í ár, að viðhorfsbreytingin sem þarf að eiga sér stað er fyrst og fremst í ráðuneyti menntamála þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið með stjórnina núna vel á annan tug ára. (Forseti hringir.) Það er þar sem viðhorfsbreytingin þarf að eiga sér stað og það er þar sem starfsnámið og tækninámið á undir högg að sækja.