133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

framboð verk- og tæknináms.

218. mál
[13:42]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er hreint makalaust að heyra fjárlaganefndarmenn koma hingað, eins og hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, og segja að verið sé að skerða framlög til framhaldsskólans. Ef menn sjá þróun framlaga til framhaldsskólans á síðustu árum almennt — vissulega eru ákveðnir skólar sem eiga undir högg að sækja — þá hefur rekstur framhaldsskólans á undanförnum árum stórbatnað.

Ég vil líka nefna að í gegnum fjárframlögin á síðustu árum hafa framlög á nemanda vegna bóknáms annars vegar og verknáms hins vegar, þ.e. framlög til nemenda í verknámi, stóraukist. Það er því mikill vilji til þess að efla og styrkja starfsnámið. Það er einnig rétt sem komið hefur fram að menn munu fara mjög gaumgæfilega yfir þær tillögur sem liggja fyrir til þess að sjá hvaða áhrif þær hafa á reiknilíkanið og skoða það í víðu samhengi í góðu samstarfi.

Það sem er umhugsunarefni eru litlu skólarnir á landsbyggðinni sem við þurfum sérstaklega að líta til. Það er ekki reiknilíkanið eitt og sér sem mun vera sá áhrifavaldur sem leiðir til þess að þeir eiga í rekstrarerfiðleikum heldur eru aðrir þættir sem við þurfum að skoða og það er það atriði sem ég tel mikilvægt að hv. þingmenn sem og ráðuneytið þurfi sérstaklega að líta til.

Ég vil hins vegar undirstrika að tillögur starfsnámshópsins munu fá og eru til umfjöllunar í samkomulaginu, sem nefnist tíu skrefa samkomulagið. Það er mikilvægt að þær fái brautargengi þar því að ég fagna sérstaklega því viðhorfi sem ég skynja að ef menn vilja breyta því viðhorfi, bæði hér innan dyra og í samfélaginu, sem er til starfsnámsins þá verður það til þess jú að fjölga þeim nemendum sem við þurfum á að halda til að sækja starfsnámið, til að auka fjölbreytileikann fyrir atvinnulífið, fyrir fyrirtækin í landinu og fyrir samfélagið í heild. Við þurfum því að efla starfsnámið, það eru allir sammála um, en fyrst er að breyta hugarfarinu.