133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

framhaldsskóli í Rangárvallasýslu.

285. mál
[13:48]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að mótmæla því að að framhaldsskólanum sé sótt. Erlendir úttektaraðilar hafa m.a. tekið sérstaklega fram að rekstur framhaldsskólanna í heild sé ágætur. Sem stendur er tekið á ákveðnum þáttum og ekki er síður vert að nefna að nemendum hefur stórfjölgað á framhaldsskólastiginu. Sú fjölgun er í raun einsdæmi. Við erum ekki með skólaskyldu frá 16 ára til tvítugs en engu að síður sækir 95–96% fæðingarárgangs í framhaldsskóla. Það er mikið fagnaðarefni.

Um leið náum við í hina svokölluðu eldri nemendur í gegnum framhaldsskólann, sem er einstætt og á sér ekki aðrar fyrirmyndir. Það er mjög jákvætt. Þetta sjáum við m.a. á norðanverðu Snæfellsnesi en þar vanmátum við í raun þörf og vilja eldri nema til að koma inn í framhaldsskólann. Við erum í raun í stórsókn hvað framhaldsskólana varðar. Við þekkjum að þegar aðsóknin er mikil þá náum við ekki alltaf að fylgja öllu eftir. En bæði aðsóknin og metnaðurinn er mikill.

Þess vegna höfum við m.a. rætt um framhaldsskólana í dag, þ.e. að auka möguleika með tilliti til landsvæða og þeirrar þekkingar sem er til staðar varðandi nýtingu á tækni, fjarkennslu, og almennt reynslu af skólarekstri. Þess vegna fjölluðum við áðan um framhaldsskóladeild á sunnanverðum Vestfjörðum sem gefa mun fólkinu þar möguleika á að sækja sér menntun fram að 18 ára aldri. En það byggist m.a. á reynslunni sem það fólk aflaði sér, árareynslu af hinu svokallaða dreifmenntaverkefni sem leggur grunn að því að hægt sé að taka frekari skref í skólakerfinu á því svæði.

Með fjölgun framhaldsskóla síðustu árin hefur verið reynt að koma til móts við kröfur um nám í heimabyggð eða sem næst heimabyggð. Ég vil geta þess að greiðara aðgengi að menntun skiptir miklu máli, eins og við erum öll sammála um, fyrir einstaklinga og styrkir sérstaklega byggðir sem eiga undir högg að sækja vegna brottflutnings fólks, m.a. vegna þess að unglingarnir þurfa að fara að heiman í framhaldsskóla.

Víða um land óska heimamenn eftir að kannaðir verði möguleikar á stofnun framhaldsskóla til að mæta þessari þörf. Einnig er ljóst að mikil fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu kallar hugsanlega á fjölgun framhaldsskóla til viðbótar við stækkunaráform sem nú eru í gangi. Við vitum að til þess að anna þörfinni á suðvesturhorninu þurfum við að fjölga framhaldsskólum á svæðinu.

Á síðastliðnu vormissiri starfaði nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins að því að meta þörf á nýjum framhaldsskólum og staðsetningu þeirra. Nefndin gerði athuganir á fyrirsjáanlegri og líklegri þróun nemendafjölda, bæði á upptökusvæðum skóla sem nú starfa en einnig sérstaklega á svæðum þar sem fólksfjölgun er ör, svæðum með erfiðar samgöngur og svæðum í harðri baráttu við óhagstæða íbúaþróun. Þar er því tekið tillit til margra ólíka sjónarmiða. Nefndin hafði hliðsjón af mörgum þáttum í starfi sínu: tækniþróun, breytingu á sjálfræðisaldri og þróun grenndarhugtaksins í skólamálaumræðu.

Nefndin skoðaði m.a. forsendur fyrir starfrækslu skóla á Hvolsvelli fyrir póstnúmer 850–880 eða Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Meðalnemendafjöldi í árgangi grunnskóla á þessu svæði næstu 10 árin er innan við 70 nemendur og líkleg innritunartala á svæðinu innan við tveir þriðju af þeirri tölu, ef tekið er mið af reynslu af öðrum skólasvæðum.

Á Suðurlandi er skráður 1391 nemandi í framhaldsskóla árið 2004, af þeim voru 66% í skólunum á Suðurlandi, þ.e. í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og ML, þ.e. Menntaskólanum á Laugarvatni. Á Laugarvatni eru rúm 50% nemenda skólans af Suðurlandi en 93% á Selfossi.

Það er mat nefndarinnar að skóli í sýslunni væri ekki fremst í forgangsröð nýrra skóla í landinu, einkum vegna góðra samgangna á svæðinu og fyrirsjáanlegrar fækkunar í skólum vestar á Suðurlandi, þ.e. á Laugarvatni og Selfossi, þegar horft er til fæðingarárganga sem sækja munu framhaldsskóla fram til ársins 2020.

Engu að síður, virðulegi forseti, er ástæða til að halda vöku sinni. Það mun menntamálaráðuneytið að sjálfsögðu gera í þessu málefni og bregðast við í samræmi við þróunina á svæðinu og kröfum hvers tíma. En aðalatriðið fyrir okkur er koma sem flestum í skóla þannig að einstaklingarnir fái þá menntun sem þeir óska eftir og þörf er á.