133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

stækkun hjúkrunarheimilisins Sóltúns.

117. mál
[14:15]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér er spurt:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að teknar verði upp viðræður við rekstraraðila hjúkrunarheimilisins Sóltúns um viðbyggingu fyrir þjónustu við aldraða sem þarfnast vistunar á hjúkrunarheimili?“

Því er til að svara að uppbygging hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu hefur verið eitt af forgangsverkefnum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ásamt uppbyggingu hjúkrunarheimila á suðvesturhorni landsins, á Suðurlandi og norðanverðum Vestfjörðum. Hvað varðar Reykjavík sérstaklega hefur þegar verið gert formlegt samkomulag við Reykjavíkurborg um byggingu 110 rýma hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut og 90 rýma hjúkrunarheimilis á Lýsislóð, en Seltjarnarnesbær kemur einnig að þeirri uppbyggingu. Þessi heimili verða tekin í notkun á árunum 2008 og 2009. En það er rétt sem hér kom fram að uppbyggingin, sérstaklega á Suðurlandsbrautinni, hefur gengið hægar en vonir stóðu til.

Auk þess að leggja þessum heimilum til lóðir, ráðuneytinu að kostnaðarlausu, munu sveitarfélögin sameiginlega standa undir 30% byggingarkostnaðarins, sem er hærra en það 15% hlutfall sem almennt er miðað við frá sveitarfélögunum. Samhliða ofangreindri fjölgun hjúkrunarrýma verður áfram unnið að endurbótum á öldrunarstofnunum með það að markmiði að fjölga einbýlum og bæta aðbúnað.

Hjúkrunarheimilið Sóltún sótti þann 30. nóv. 2004 um framkvæmda- og rekstrarleyfi fyrir 109 hjúkrunarrými, 11 dagvistarrými og 8 helgardvalarrými til viðbótar þeim rýmum sem nú þegar eru á Sóltúni. Umsókn þeirra var ítrekuð þann 30. des. 2005. Auk þess hafa stjórnendur Sóltúns verið tilbúnir til þess að ræða aðra möguleika svo sem úrræði fyrir heilabilaða, geðsjúka og jafnvel að yfirtaka rekstur öldrunarsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss á Landakoti.

Í fyrrgreindri umsókn sinni um framkvæmda- og rekstrarleyfi sækir hjúkrunarheimilið Sóltún um að Framkvæmdasjóður aldraðra greiði húsaleigu fyrir fyrrgreind 128 rými og vísar í því sambandi til heimildarákvæðis í lögum um málefni aldraðra og til undanþáguákvæðis frá útboði húsaleigu í sömu lögum.

Með vísan til þess að þegar hefur í samvinnu við Reykjavíkurborg verið ákveðin uppbygging 200 nýrra hjúkrunarrýma á allra næstu árum fyrir aldraða Reykvíkinga og Seltirninga og þess að önnur forgangsverkefni utan Reykjavíkur eru brýnni verður ekki séð að framkvæmd af þeirri stærðargráðu sem Sóltún hefur óskað eftir að fara í rúmist innan þeirra fjárveitinga sem ráðuneytið hefur til uppbyggingar hjúkrunarheimila á næstu árum.

Þess ber að geta að næstu skref í uppbyggingu hjúkrunarheimila í Reykjavík hafa verið undirbúin og ákveðin í náinni samvinnu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Í þeim undirbúningsviðræðum var rætt um hvort fara ætti svokallaða leiguleið, þ.e. að ráðuneytið og borgin taki sameiginlega á leigu húsnæði fyrir rekstur hjúkrunarheimilis. Af hálfu borgaryfirvalda var á þeirri stundu ekki vilji til að fara þá leið sem fæli í sér, með vísan til laga um málefni aldraða, langtímaskuldbindingu fyrir báða aðila í formi langtímaleigu.

Mitt svar er því að búið er að ákveða 200 ný rými í Reykjavík sem skiptast á Lýsislóðina og Suðurlandsbrautina. Það er brýnt að taka á þjónustuþörfinni í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og þar er Kópavogur efstur á blaði. Þar er mjög mikil þörf og hið sama má segja um önnur sveitarfélög, ég nefni Garðabæ, Hafnarfjörð og kannski sérstaklega Mosfellsbæ en þar er ekki eitt einasta rými í dag. Þegar við úthlutuðum um daginn 174 nýjum rýmum var litið til þess hvar þörfin er mest. Þörfin var einnig metin í þremur sveitarfélögum á landsbyggðinni, þ.e. í Reykjanesbæ, á Selfossi og Ísafirði.