133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

Ekron-starfsþjálfun.

144. mál
[14:39]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu og góðum stuðningi frá þingmönnum við þetta mikilvæga málefni. Jafnframt fagna ég því að ráðherra ætlar að minnsta kosti að skoða málið en vænti þess að það sofni ekki í nefnd sem svo oft vill gerast, því miður, hér á hinu háa Alþingi.

Starfsemi Ekron snýst í raun og veru um að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft. Það er einn erfiðasti hjallinn þegar fólk, t.d. eftir vímuefnaneyslu er að reyna að komast út á vinnumarkaðinn, að sjálfsvirðing og annað hefur gjörsamlega hrunið. Ekron snýst um að aðstoða þetta fólk, gera það vinnufært, gera það fært til að taka þátt í samfélaginu, gera það fært til að taka þátt í félagsskap o.s.frv.

Hugsjónafólkið í Ekron vill þjóðinni greinilega vel. Meðmælendalisti þeirra er mjög langur. En biðlistinn eftir aðstoð er enn lengri og því liggur á að heilbrigðisráðherra komi starfseminni á fjárlög. Ég mundi halda að það væri ekki seinna en núna strax í nóvember, okkur öllum til heilla.