133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

Ekron-starfsþjálfun.

144. mál
[14:40]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir jákvæðar umræður um starfsendurhæfingu öryrkja. En eins og fram kom í fyrra svari mínu er að störfum nefnd forsætisráðherra sem fjallar um hvernig megi bregðast við fjölgun öryrkja af því að það er rétt sem kom fram að þeim fjölgaði mjög hratt um tíma. Það er ekki alveg sama fjölgun í augnablikinu, sem er jákvætt.

En umrædd nefnd fjallar líka um starfs- og atvinnuendurhæfingu öryrkja og þeirra sem hafa átt í langtímaveikindum, m.a. hvar best sé að koma slíkri endurhæfingu fyrir. Á hún að vera á forræði Vinnumálastofnunar sem fer almennt með útvegun atvinnu og atvinnuendurhæfingu atvinnulausra? Eða á hún að vera á hendi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra eða beggja? Þetta er verið að skoða núna í nefndinni. Það er verið að skoða heildarskipulag þessara mála og hvar sé eðlilegt að koma því fyrir.

Ég tel að mörgu leyti eðlilegt að þetta sé á einni hendi. Í dag styrkja bæði heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti ýmsa einkaaðila sem sinna þessum málum. Ég tel æskilegt að þetta sé á einni hendi því þannig náist betri heildaryfirsýn. En þar með er ég ekki að segja að það eigi ríkisvæða þetta eitthvað sérstaklega. Ég tel mjög eðlilegt að gera þjónustusamninga við þá sem vilja reka svona þjónustu, þá með styrk frá ríkinu.

En ég tel að við þurfum að sjá hvaða niðurstaða kemur frá nefnd forsætisráðherra og þá að viðkomandi aðili sem mun bera ábyrgð á málaflokknum geri samninga við aðilann.