133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

kostnaður vegna hjúkrunarrýma.

183. mál
[15:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í lögum um heilbrigðisþjónustu var sveitarfélögum gert skylt að greiða 15% af stofnkostnaði, meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum á sjúkrahúsum. Árið 2002 sömdu sveitarfélögin við ríkið um að þessum greiðslum yrði hætt á móti minna framlagi ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Sveitarfélögin höfðu þá árum saman innt af hendi lögboðnar greiðslur vegna stofnkostnaðar og svokallaðs meiri háttar viðhalds. Hvað meiri háttar viðhald fól í sér var aldrei fullljóst og aldrei skilgreint með skýrum hætti í reglugerð og dæmi eru um að ólíkustu þættir í rekstri sjúkrahúsa væru flokkaðir sem meiri háttar viðhald til að geta krafið sveitarfélögin um greiðslur sem í raun áttu að falla á ríkið.

Samningur ríkis og sveitarfélaga um niðurfellingu þessara greiðslna var því fagnaðarefni. Samningurinn fól í sér að sveitarfélögin hættu að greiða framlag vegna svæðissjúkrahúsa, deildarsjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa en áttu áfram að greiða vegna hjúkrunarheimila.

Vorið 2003 var lögum breytt á Alþingi í samræmi við samninginn. Fljótlega kom þó í ljós mismunandi túlkun á samningnum og ákvæðum laganna. Af hálfu ríkisins var því haldið fram að sveitarfélögin ættu áfram að greiða 15% af stofnkostnaði, meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum vegna hjúkrunarrýma fyrir aldraða sem væru á sjúkrahúsunum. Þessu mótmæltu sveitarfélögin eindregið en voru samt krafin um greiðslur og einhver sveitarfélög inntu greiðslurnar af hendi en með fyrirvara um leiðréttingu þegar niðurstaða fengist.

Ríkið og sveitarfélögin í landinu náðu ekki sátt í málinu og var það sett í gerðardóm. Þessar deilur hafa staðið yfir í nokkur ár og niðurstaða fékkst ekki fyrr en nú í haust þegar gerðardómur lá fyrir, sveitarfélögunum í hag. Einhver þeirra hafa, eins og áður segir, greitt þær upphæðir sem ríkið krafðist meðan á þessum langvarandi deilum stóð.

Það er svo sem ekkert nýtt í því að ríkisvaldið reyni að ýta kostnaði yfir á sveitarfélögin sem mörg hver eru illa stödd fjárhagslega en þarna liggur fyrir að sveitarfélögin hafa verið krafin um upphæðir sem engin lagaheimild er fyrir. Þessar upphæðir þarf að endurgreiða og að sjálfsögðu með vöxtum.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hversu mörg sveitarfélög hafa verið krafin um of háar greiðslur vegna túlkunar ráðuneytis á ákvæðum laga um 15% greiðsluþátttöku sveitarfélaga í stofnkostnaði, meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum vegna hjúkrunarrýma á svæðissjúkrahúsum, deildarsjúkrahúsum og almennum sjúkrahúsum, samanber úrskurð gerðardóms 8. september sl. og um hve háar upphæðir er að ræða í hverju tilviki? Hafa sveitarfélögin fengið þessar upphæðir endurgreiddar ásamt vöxtum? Ef ekki, hvenær verður það?