133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

kostnaður vegna hjúkrunarrýma.

183. mál
[15:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör sem eru nokkuð skýr og fagna því að það stendur til að greiða sveitarfélögunum nú fljótlega, sem auðvitað hefði átt að gera strax í september þar sem gerðardómur féll 8. september og hægt hefði verið að reikna þetta út þá strax og greiða með vöxtum. Eins og ég sagði áðan eru mörg þessi sveitarfélög þannig stödd að þeim veitir ekki af þeim fjármunum sem þau geta haft til ráðstöfunar og ríkið getur ekki leyft sér að liggja með þá þar sem orðið er um langan tíma að ræða.

Út af fyrir sig er svo umhugsunarvert að sá samningur sem gerður er 2004 milli ríkis og sveitarfélaga um að reyna að ná þessum samningum til þrautar, annars yrði þessu vísað í gerðardóm, skuli taka allan þennan tíma, að svo langan tíma taki að ná niðurstöðu í málið. Upphaflegu samningarnir eru gerðir 2002. Árið 2003 er lögunum breytt og það verður strax ágreiningur um túlkun þeirra laga. Það hefði verið eðlilegt að skera úr um það áður en farið var að krefja sveitarfélögin um greiðslur sem nú verður að endurgreiða.

Það er hins vegar fagnaðarefni að þetta skuli vera komið á hreint. Ég heyrði þó ekki hjá hæstv. ráðherra hvort á þessum tíma hefði verið eitthvað um að ræða greiðslur vegna viðhalds eða tækjakaupa inni á þessum sömu stofnunum vegna hjúkrunarrýma. Ég lít svo á að í svörum ráðherra hafi verið um tæmandi upphæðir að ræða, ekki einungis stofnkostnað heldur allar þær upphæðir sem greiddar hafa verið.