133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi.

156. mál
[15:34]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þegar sameinaðar voru stofnanirnar Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, RALA og Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum var búið að undirbúa sameiningu RALA og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri en ekki Garðyrkjuskólans. Samt var tekin sú ákvörðun að keyra Garðyrkjuskólann og reyndar Hólaskóla líka inn í það púkk, algjörlega óundirbúið. Það tókst að bjarga Hólaskóla frá því að lenda í þessu sameiginlega ferli.

Ég taldi rétt að sameina Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri en það var algjörlega óundirbúið að leggja Garðyrkjuskólann inn í þá sameiningu eins og þá var gert. Ég varaði við því og ég var sá eini hér. Þingmenn sem nú taka upp málið greiddu atkvæði með þessu þá. (JGunn: Það var loforð frá ráðherra.) Loforð frá ráðherra er einskis virði í svona málum. (Forseti hringir.) Við vitum það. Ég hvet til þess að staðið verði við garðyrkjunámið og það á miklu myndarlegri hátt en hefur verið gert.