133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi.

156. mál
[15:35]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við sem höfum heimsótt Garðyrkjuskólann á Reykjum undanfarin ár höfum ekki komist hjá því að sjá að þar er húsakostur í mikilli niðurníðslu og í mjög slæmu ástandi. Það er alveg fyllilega réttmætt að gagnrýna stjórnvöld harðlega fyrir það að hafa látið þetta fara svona. Garðyrkjan er stóriðja á Suðurlandi, á því er enginn vafi, og ég tel að Garðyrkjuskólinn á Reykjum sé í raun og veru afskaplega vel í sveit settur. Þegar ég hef komið upp að Reykjum hef ég oft furðað mig á því hvers vegna í ósköpunum stjórnvöld sýna ekki meiri metnað hvað varðar þennan ágæta skóla. Ég sit sjálfur í landbúnaðarnefnd og kannast við þessi loforð sem gefin voru. Ég get ekki séð að þau hafi verið efnd. Ég hlýt líka að nota tækifærið, virðulegi forseti, til að kalla eftir skýrari svörum frá ráðherra. Það er eins og skólinn hafi (Forseti hringir.) verið í eins konar tómarúmi í allt of mörg ár og það er kominn tími til að við fáum skýringar á þessu.