133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

niðurstöður nýrrar könnunar um launamun kynjanna.

[16:01]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að taka til umræðu hér á þingi þetta mikla óréttlæti sem ríkir í samfélagi okkar sem launamunur kynjanna er.

Ég verð að taka undir með hæstv. félagsmálaráðherra, niðurstöður launakönnunarinnar um launamun kynjanna ollu mér miklum vonbrigðum. Niðurstöðurnar ollu mér vonbrigðum vegna þess að stefna þessarar ríkisstjórnar hefur verið að eyða kynbundnum launamun. Við höfum leitað til þess ýmissa leiða. Lagaumhverfið hefur verið bætt, jafnréttisáætlunum komið á og hin ýmsu átök verið sett af stað.

Stærsta framlag til jafnréttisbaráttunnar og atlagan að kynbundna launamuninum eru svo auðvitað lögin um jafnan rétt foreldra til fæðingarorlofs. Þau jákvæðu teikn sem þó má finna í áðurnefndri launakönnun Capacents lúta einmitt að fæðingarorlofinu en í henni kom fram að 70% viðmælendanna teldu að áhrif þeirra laga væru að koma fram.

Fæðingarorlofið nýta sér 90% feðra sem sýnir að löggjöfin er farin að virka og litið er til áhrifa hennar um allan heim. Jafnframt má finna jákvæðar vísbendingar um að breytinga megi vænta varðandi áhrif fjölskylduábyrgðar á vinnumarkaði hérlendis og þar með á stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

Ég fagna því að viðhorfsbreyting virðist eiga sér stað, eins og sést í könnun meðal ungra kvenna á aldrinum 15 til 25 ára. Þær gera að sjálfsögðu sömu kröfur og karlkyns jafnaldrar þeirra.

Frú forseti. Fram hafa komið í umræðunni hér í dag og í þeirri sem við höfum auðvitað oft áður tekið ýmsar hugmyndir og tillögur, sumar róttækar og aðrar ekki, sem allar hafa það að markmiði að eyða launamun kynjanna. Mér finnst fyrir mitt leyti að við eigum að taka jákvætt í allar þessar hugmyndir og tillögur. Við höfum hreinlega ekki ráð á því að hafna neinum lausnum. Við öll sem hér erum og samfélagið í heild sinni viljum eyða þessu óréttlæti sem kynbundinn launamunur er. Tökum nú höndum saman og göngum endanlega frá því.